Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:30:54 (7149)

1998-05-28 18:30:54# 122. lþ. 136.21 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:30]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu tvö frv. sem flutt voru fyrr á þessu þingi af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur ásamt þremur öðrum þingmönnum, þeim sem hér stendur, Gísla S. Einarssyni og Guðna Ágústssyni.

Annars vegar er um að ræða frv. til laga um söfnunarkassa og hins vegar frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, með síðari breytingum.

Hér er á ferðinni stórmál og hefði ég að sjálfsögðu kosið að þau hefðu hlotið samþykki þingsins í stað þess að vera vísað til frekari úrvinnslu hjá ríkisstjórninni. Hins vegar felst í því viðurkenning á því að á þessum málum þurfi að taka.

Svo ég hafi aðeins fáein orð um þessi frv. Ég ætla ekki að hafa þau mjög mörg, ég gerði grein fyrir mínum sjónarmiðum þegar þau voru til umræðu við 1. umr. málsins.

Frv. til laga um söfnunarkassa gerir ráð fyrir því að lög frá árinu 1994 verði felld úr gildi. Þegar þau voru samþykkt árið 1994 voru þingmenn ekki á einu máli um ágæti slíkrar fjáröflunar. Íslenskir söfnunarkassr eru í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands. Gert er ráð fyrir því að tekjum af kössunum verði varið til starfsemi þessara samtaka. Það leikur ekki nokkur vafi á því að stuðningur við þessa lagasetningu árið 1994 byggðist á góðum málstað þeirra samtaka sem í hlut eiga.

Í lögunum er að finna ákvæði um að dómsmrh. setji í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir söfnunarkassa; eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu framlaga. Einnig er rætt um aldurstakmörk þeirra sem nota mega kassana og kveðið á um að hann skuli ekki vera lægri en 16 ár. Þá er gert ráð fyrir því að ráðherra geti með reglugerð sett nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, þar á með greiðslu kostnaðar við eftirlit og endurskoðun.

Skemmst er frá því að segja að engin reglugerð hefur verið sett um framkvæmd laganna, eftirlit er nánast ekkert og deginum ljósara að börn og unglingar eiga greiðan aðgang að þessum kössum. Þá er það staðreynd að fjöldi fólks hefur ánetjast spilafíkn vegna þessara kassa. Nú er svo komið að miklum fjármunum er varið til að veita meðferð vegna þeirrar ógæfu sem þessi starfsemi hefur kallað yfir fólk.

Frá miðju ári 1995 fram á mitt ár 1996 söfnuðust 992,8 millj. kr. með þessum hætti. Við erum að tala um tæpan milljarð kr. sem tekinn var úr vösum þeirra sem notfæra sér þessa kassa. Nú vitum við að fjöldi þeirra sem fer í kassana gerir það endrum og eins, hugsanlega mjög sjaldan. En hitt er ljóst, og það hafa rannsóknir og athuganir leitt í ljós, að fjöldi einstaklinga hefur ánetjast þessum kössum, haldinn spilafíkn og háður þeim.

Varðandi hitt frv., um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, er það að segja að árið 1972 fékk Rauði kross Íslands leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að hefja rekstur spilavéla í fjáröflunarskyni. Þær vélar gátu skilað mönnum allt að fimmföldum peningavinningi. Ýmis skilyrði um eftirlit fylgdu leyfisveitingunni og skyldu kassarnir merktir Rauða krossinum. Árið 1977 fékk Rauði krossinn leyfi fyrir innflutningi og uppsetningu nýrrar tegundar spilakassa með sömu skilyrðum og áður og enn voru veitt leyfi fyrir nýjum tegundum spilakassa árið 1986 og 1987. Árið 1981 fékk SÁA leyfi til að reka spilakassa sem merktir yrðu þeim samtökum.

Fleiri eygðu hér ábata og svokallað Lukkutríó var stofnað sem Slysavarnafélag Íslands, Landssamband Hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita máttu starfrækja. Vinningar voru að þessu sinni hlutir en ekki peningar. Rauði krossinn og eigendu Lukkutríósins rugluðu síðan saman reytum og gerðu með sér samning um rekstur spilakassa. Enn voru sett skilyrði um eftirlit lögreglu og fleira. Landssamböndin tvö sameinuðust og urðu að Landsbjörg. Spilakassafyrirtækið sem tók til starfa 1. jan.1994 bar heitið Íslenskir söfnunarkassar.

Þegar hér var komið sögu fór Háskóli Íslands að hugsa sér til hreyfings. Með lögum frá árinu 1986 fékk hann heimild til að reka skyndihappdrætti með peningavinningum, svo og peningahappdrætti sem ekki yrði rekið sem flokkahappdrætti. Háskólinn nýtti sér þessa heimild án frekari lagabreytingar og hóf rekstur happdrættisvéla árið 1993 samkvæmt reglugerð frá því sama ári.

Þegar dómsmrh. lagði fram frv. um Íslenska söfnunarkassa hefur eflaust þótt rétt að lögfesta einnig rétt Happdrættis Háskóla Íslands til reksturs spilakassanna sem þegar voru komnir í gagnið. Þá var einnig lagt fram frv. um þann rekstur og urðu bæði frumvörpin að lögum árið 1994. Sá munur er á rekstri þessara tveggja aðila að happdrættisfélag háskólans má samtengja einstakar vélar og á milli sölustaða. Sú samtenging felur í sér meiri uppsöfnun fjár í kössunum og þar af leiðandi aukna möguleika á háum vinningum. Víða um lönd er þetta bannað með lögum vegna þess að þarna er spilað á fíkn þeirra sem þessu eru háðir.

Auðvitað er þetta mjög ógeðfelldur máti til að afla peninga og algerlega óafsakanlegur, þó að þessir aðilar eigi í hlut þá er þetta algerlega óafsakanlegt. Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir alla þá sem starfa við Háskóla Íslands eða sækja menntun til þeirrar stofnunar, að 619 milljónir kr. skuli hafa aflast úr Gullnámunni svokölluðu á einu ári, upp úr þessum spilavélum. Þetta eru að sjálfsögðu ekkert annað en spilavíti sem hér eru rekin af virðulegum stofnunum í þjóðfélaginu. Það er fráleitt annað, fyrir alla þá sem þekkja til þessara mála og þekkja hve mikla ógæfu þessar vítisvélar hafa leitt yfir einstaklinga og heimili. Það algerlega óafsakanlegt að leggja ekki blátt við þessari starfsemi.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort rétt væri að færa þessa hluti nær ábyrgðarkenndinni hjá fólki og þeim sem njóta góðs af þessum ávöxtum. Það væri kannski ráð að merkja kassana einstökum deildum Háskólans þannig að guðfræðideildin gæti t.d. fengið Hlemm, Siðfræðistofnun gæti fengið kassa á einhverjum veitingastað og þar fram eftir götunum. Samtök á borð við SÁÁ, sem fá peninga upp úr þessum kössum, eru farin að verja fjármunum til námskeiðahalds tila að hjálpa fólki sem lent hefur í þessari ógæfu. Það ætti að vera þeim samtökum og öðrum sem ámóta er statt fyrir umhugsunarefni.

Það eru til tvenns konar fíklar sem tengjast þessu, það eru til tvenns konar fíklar. Það eru þeir sem spila og það eru þeir sem eru háðir þeim tekjum sem aflað er með þessum hætti.