Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 14:08:43 (7211)

1998-06-02 14:08:43# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, BH
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[14:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er ekki einfalt og snertir marga þætti sem vissulega hefur verið komið inn á í umræðu um málið. Það fjallar nefnilega ekki einvörðungu um stækkun Atlantshafsbandalagsins sem slíka heldur er það ekki síður liður í sjálfstæðisbaráttu þeirra þjóða sem hér hafa sótt um aðild að bandalaginu.

Þessar þjóðir hafa allar lagt á það mikla áherslu að umsóknir þeirra í Atlantshafsbandalagið verði samþykktar. Segja má að sú afstaða eigi sér að nokkru leyti uppruna í sögu þessara þjóða og á hvern hátt þær hafa leitast við að bindast vestrænum ríkjum sem vissulega hefur verið liður í þeirra sjálfstæðisbaráttu.

Í mínum huga snýst þetta mál einmitt um sjálfsákvörðunarrétt þessara þjóða. Mér finnst það skipta miklu máli að þær hafa óskað eftir aðild að bandalaginu. Jafnvel þó að rökræða megi um þátttökuna í atkvæðagreiðslum í þessum löndum, þá skiptir mestu að niðurstaðan er sú að þessar þjóðir hafa eindregið óskað eftir því að komast inn í Atlantshafsbandalagið. Í hugum þess fólks sem þar býr skiptir niðurstaðan mjög miklu máli. Ég benti einnig á þetta í umræðum um utanríkismál fyrr í vetur og þar lýsti ég þessari skoðun minni að mér fyndist það vera mjög stór röksemd fyrir því að styðja þetta mál, að þarna er um að ræða lið í sjálfsákvörðun þjóðanna sjálfra.

Gífurlegar breytingar hafa átt sér stað í Evrópu á síðustu árum og þær hafa líka haft það í för með sér að innan NATO eða Atlantshafsbandalagsins hefur verið rætt um nýjar leiðir. Stefnumótun bandalagsins hefur verið tekin til ítarlegrar skoðunar og það hefur breytt ásýnd bandalagsins töluvert frá því sem hún var. Hvernig sem við lítum svo á þessar breytingar, hvernig sem við túlkum þær og hvað sem okkur kann að finnast um þær, þá eru rökin um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna hvað sterkust við afgreiðslu þessa máls. Vilji fólksins sem byggir þessi lönd hefur mjög mikla þýðingu í þessum efnum og vegur því mjög þungt við afgreiðslu málsins. Þess vegna tel ég rétt að styðja málið eins og það kemur fyrir þingið. Ég minni á það að við erum að taka afstöðu til þessarar þáltill. eins og hún kemur fyrir þingið og ég tel rétt að styðja hana eins og hún kemur fyrir, ekki síst og í raun og veru helst á þeim grundvelli að þarna er um að ræða vilja þeirra þjóða sem sótt hafa um. Ég tel mjög mikilvægt að taka mið af þeim vilja.