Langtímaáætlun í vegagerð

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 15:13:41 (7233)

1998-06-02 15:13:41# 122. lþ. 140.4 fundur 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, GÁS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég bað um sérstaka atkvæðagreiðslu við þennan lið til þess að vekja athygli á undirliðnum Reykjanesbraut, Hafnarfjörður-Keflavík því að ýmsir hafa haldið þeirri umræðu mjög á lofti að Reykjanesbrautin sunnan Hafnarfjarðar verði bara tvöfölduð alveg á næstu dögum. Þennan söng á eftir að syngja vafalaust næstu mánuði.

Ég vil vekja á því sérstaka athygli að ekki verður hreyft við þeim vegabótum fyrr en á síðasta stigi þessarar áætlunargerðar, þ.e. rétt fyrir árið 2010. Ég vildi halda því mjög alvarlega til haga, og það er ekki trúverðug áætlunargerð þegar ýmsir hv. stjórnarþingmenn hafa haldið öðru fram. Ég styð þetta, hefði viljað ganga lengra og vil nefna einnig til sögunnar að frá ýmsum lausum endum er ekki gengið hvað varðar Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar. Ég hefði viljað sjá þar fleiri valkosti nefnda, svo sem ofanbyggðaveg. Ég vil láta það koma fram og festa það í bækur við þessa atkvæðagreiðslu en mun engu að síður styðja þá viðleitni sem hér er að finna.