Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:20:27 (7272)

1998-06-02 17:20:27# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:20]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að koma örstutt inn í þessa umræðu sem hér fer fram um heilbrigðismál. Hv. málshefjandi kallaði eftir stefnu og taldi hana ekki vera mikla eða alla vega taldi hann ástæðu til að kalla eftir henni hér.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur farið yfir stefnuna og ýmsar nýjungar sem hún hefur beitt sér fyrir í ráðherratíð sinni. Ég ætla ekki að endurtaka það allt en það má t.d. nefna byggingu barnaspítala, fjarlækningar, nýjar deildir og verulega endurnýjaðar sem unnið hefur verið við bæði á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og á Ríkisspítölum. Það má nefna barnadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og margt, margt fleira mætti nefna svo sem legudeildir á Blönduósi og Akranesi o.s.frv., þannig að víða hefur verið tekið til hendinni.

Mig langar einnig að nefna til viðbótar geðheilbrigðismálin sem oft eru hér til umræðu. Samkvæmt skýrslu sem unnin er af norrænni tölfræðistofnun eru sjúkrarúm í geðlækningum hér á landi 118 á 100 þúsund íbúa. Einungis í Finnlandi eru fleiri rúm eða 130. Í Danmörku eru þau 81, Noregi 70, Svíþjóð 80 og Grænlandi 32. Þessar tölur sýna a.m.k. að á þessu sviði ætti ekki að vera skortur á úrræðum og eins má nefna að sumarlokanir eru minni á geðsviðum en á öðrum sviðum sjúkrahúsanna.

Hæstv. forseti. Mig langar til að koma aðeins inn á heilsugæsluna þar sem hæstv. heilbrrh. hefur beitt sér alveg sérstaklega fyrir úrbótum og á þakkir skildar fyrir það. Það má eiginlega segja að þáttaskil hafi orðið í málefnum heilsugæslunnar í júlí 1996 þegar ráðherra lagði fram stefnumótun í 21 lið um uppbyggingu þjónustunnar.

Hún nefndi sjálf nokkur atriði sem unnið hefur verið að og þar sem byggðar hafa verið nýjar heilsugæslustöðvar, ég ætla ekki að endurtaka það, en það má nefna að heildarkostnaður til þess að ljúka þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi, er um 500 millj. kr. og rekstrarkostnaður sem bætist við vegna þeirra er um 50 millj. kr. á þessu og næsta ári, þannig að víða er tekið til hendinni.

Að síðustu, hæstv. forseti, vil ég nefna að gert hefur verið stórátak í forvörnum sem hefur skipt verulegu máli, en svo geta hv. þingmenn náttúrlega gert lítið úr því, en það eru hvorki meira né minna en 125 millj. á ári tvö síðustu ár.

Það er ósköp auðvelt að koma hér upp, eins og nokkrir þingmenn hafa raunar gert, og tala um neyðaráætlun í sambandi við uppsagnir hjúkrunarfræðinga og það þurfti ekki þessa umræðu til að hæstv. ráðherra átti sig á því að ekki er gott ástand þegar hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp í svo miklum mæli sem raun ber vitni. Einn hv. þm. talaði um grafalvarlegt ástand ef þessar uppsagnir kæmu til framkvæmda. Auðvitað er hæstv. ráðherra að vinna að lausn þessara mála en þau eru ekki einföld. Ég hef ekki orðið vör við það að nokkur hv. þm. sem hér hefur tekið til máls hafi nefnt neinar tillögur til úrbóta í þessum efnum eða hugmyndir um hvernig leysa skuli þessi mál, þannig að það er auðvelt að koma hér upp og básúna ástandið en leggja síðan ekki nokkurn skapaðan hlut til til úrbóta eins og hv. þm. stjórnarandstöðunnar gera gjarnan.

Að síðustu vil ég segja að þó að auðvitað megi finna að heilbrigðiskerfinu á Íslandi, þá er það í öllum aðalatriðum mjög til fyrirmyndar. Fram á þetta hefur verið sýnt í mörgum skýrslum sem gerðar hafa verið og erlendir sérfræðingar sem hafa heimsótt landið og kynnt sér okkar kerfi hafa dáðst að því.