Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:37:17 (7276)

1998-06-02 17:37:17# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Góðæri í heilbrigðisþjónustunni, sagði hæstv. ráðherra. Er það góðæri í heilbrigðisþjónustunni þegar verið er að lengja biðlista eftir hjartaaðgerðum um 10%? Er það góðæri í heilbrigðisþjónustunni þegar fólk er að fyrirfara sér í fangelsum vegna þess að það fær ekki geðlæknishjálp? Er það góðæri í heilbrigðisþjónustu þegar vantar 340 hjúkrunarfræðinga til starfa til að hægt sé að framfylgja neyðaráætlun um sumarlokanir?

Herra forseti. Ég lagði nokkrar spurningar um stefnumótun fyrir hæstv. ráðherra og þeim spurningum fékk ég ekki svarað. Ég vakti m.a. athygli á því að fyrir meira en ári síðan gerði hæstv. ráðherra samkomulag við heimilislækna um svokallað valfrjálst stýrikerfi sem er útgáfa af tilvísanakerfi. Það hefur ekkert gerst í því máli í heilt ár. Hæstv. ráðherra hefur í staðinn samið við sérfræðilækna um stóraukna tilfærslu til þeirra frá sjúkrahúsunum, stóraukna einkavæðingu. Þess vegna spurði ég: Hver er stefna hæstv. ráðherra í þessum málum? Ætlar hún sér ekkert að hafast að með valfrjálsa stýrikerfið? Er hún horfin frá því?

Ég spurði líka: Hvað um þessi sjálfstæðu heilbrigðisumdæmi? Tilgangur ráðherrans var aldrei sá að fækka stjórnum. Tilgangurinn var sá að setja upp eina samhæfða stjórn í hverju heilbrigðisumdæmi sem m.a. tæki ákvörðun um hvort sjúklingar úr slíku umdæmi gætu leitað sér læknishjálpar utan þess svæðis, og ég spurði: Hefur ráðherra efnt þessa stefnu? Og hvað um framkvæmdina? Ég spurði um forgangsröðunina í heilbrigðisþjónustunni. Mér var vitaskuld kunnugt um nefndina sem hæstv. ráðherra hefur skipað en ég spurði: Hvað hyggst ráðherra gera í framhaldi af þeirri nefndarskipun? Hvaða svar fékk ég? Jú, það hefur verið mörkuð sú nýja stefna að greiða skuli fyrir þá þjónustu sem hafi læknisfræðilegt gildi. Það var allt og sumt. Það var stóri sannleikurinn í málinu. Ég veit ekki betur en að þeim stóra sannleika hafi verið fylgt allar götur síðan ríkið hóf að greiða fyrir læknisþjónustu í landinu.

Ég spurði einnig hvað hæstv. ráðherra hugsar sér um samstarf sjúkrahúsanna í Reykjavík. Hún hefur lýst fylgi við allar skoðanir sem fram hafa komið um hvernig það skuli gert, allt frá því að það skuli vera í mynd góðs samstarfs á milli stofnananna upp í að þessi tvö sjúkrahús skuli ekki bara sameinuð undir eina stjórn heldur fjögur önnur sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Og ég leyfði mér að spyrja hæstv. ráðherra hvað af þessu hún ætlaði að gera. Hver er stefna hennar í þessu máli? Hvaða leið ætlar hún að velja? Hvaða boðskap hefur hún að flytja okkur í þessum efnum? Ég fékk ekkert svar. Hver er stefna ráðherrans í þessu? Eftir hvaða tillögum ætlar hún að fara? Hvers konar samstarf eða sameiningu sér hæstv. ráðherra fyrir sér?

Ég spurði hæstv. ráðherra líka miðað við þá afstöðu hennar að vera á móti þeirri breytingu sem gerð var á lyfsölulögum, þar sem samkeppni var gefin frjáls á milli apóteka sem hefur valdið því að lyfjakostnaður sjúklinga hefur snarlækkað. Þegar hæstv. ráðherra upplýsti hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson um staðreyndir þessa máls, um lækkunina á lyfjakostnaði sjúklinga sem hefur hlotist af þessari frjálsu samkeppni, þá tók hún það sérstaklega fram í svari sínu að hún hefði nákvæmlega sömu skoðun á þessu máli eins og hún hafði í stjórnarandstöðu og fyrstu mánuði sína í heilbrrn. þegar hún beitti sér eins hart gegn þessu og hægt var. Og þá er eðlilegt að menn spyrji: Ætlar hæstv. ráðherra að standa við þá stefnu sína og beita sér fyrir því að breyta þessum lögum aftur til fyrra horfs? Ég fékk ekki heldur svar við því, virðulegi forseti.

Það er ekki langur tími eftir í þessari umræðu. Minn tími er búinn. En ég vona að hæstv. ráðherra geti svarað þessum spurningum jafnskýrt og þær eru fram lagðar.