Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:32:53 (7309)

1998-06-02 21:32:53# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:32]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef sagt þá er heimild til reglugerðarútgáfu á grundvelli 12. gr. og til þessara þátta verður litið við gerð reglugerðarinnar.

En varðandi það að það ætti að vera mastersnám frekar heldur en það orðalag sem er þarna, sem við notum í greininni, þá vil ég spyrja hv. þm. --- að vísu er tíma hennar í andsvörum því miður lokið --- en þá vil ég segja: Það er ekki nein ein skilgreining til á mastersnámi. Það er ekki hægt að segja að mastersnám svari þessu með þeim hætti að fullnægjandi sé, því að það er engin ein skilgreining til á heitinu mastersnám eða hvað felst í því að hafa masterspróf. Þar stöndum við því frammi fyrir ákveðnum vanda. Þetta hefur allt verið þaulskoðað þannig að niðurstaðan varð sú eftir ítarlega athugun af hálfu meiri hluta nefndarinnar að hrófla ekki við þessu ákvæði.

Hitt liggur ljóst fyrir að það hefur komið fram að hægt sé að veita 15 eininga nám í uppeldis- og kennslufræðum og það var það sem hv. þm. spurði mig um, hvort ég hefði nokkra hugmynd um það hvort nokkur hefði látið sér detta í hug að það væri. Svo er.

En hinn þátturinn sem við þurfum að skilgreina og hér hefur komið fram að verður gert, það er inntakið í námi þeirra sem fara í þetta 15 eininga uppeldis- og kennslufræðinám.