Íþróttalög

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 22:10:27 (7325)

1998-06-02 22:10:27# 122. lþ. 141.21 fundur 447. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv. 64/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[22:10]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég stíg hér í pontu er að ég skrifa undir nál. með fyrirvara og vil gera grein fyrir honum. Hann skýrist að mestu leyti með brtt. sem ég flyt ásamt öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í mennmtn., þ.e. Svanfríði Jónasdóttur og Sigríði Jóhannesdóttur.

Ég vil taka undir það með formanni menntmn. að að mörgu leyti var umfjöllunin um þetta mál mjög fróðleg í nefndinni og ég fagna sérstaklega umræðunni sem átti sér stað um þrjár skýrslur sem tengjast íþróttum kvenna. Ég tel að þarna sé verið að vinna mjög gagnlegt og merkilegt starf. Ein skýrslan heitir ,,Hlutdeild kvenna í heildartekjum íþróttahreyfingarinnar``, og er unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, önnur heitir ,,Íþróttaefni í dagblöðum, könnun gerð fyrir nefnd um stefnumótum í íþróttum stúlkna og kvenna``, unnin af Viðari Halldórssyni, og sú þriðja er ,,Skýrsla nefndar um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna``.

Í þessum málum er greinilega víða pottur brotinn enn þá og mjög margt sem þarf að laga. En orð eru til alls fyrst og ég tel og hef enga ástæðu til að ætla annað en að það sé vilji hjá núverandi stjórnvöldum að taka á þessum málum. Mér fannst samt sem áður þegar við skoðuðum frv. ekkert vera í því sem í raun og veru tryggði eða bæri þess merki að það væri ætlunin að sinna þessum málum fyrir utan þau ágætu orð sem koma fram í nál.

Þess vegna flytjum við brtt. á þskj. 1264, annars vegar við 3. gr. og hins vegar við 8. gr. frv. og ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að gera grein fyrir þessum efnisbreytingum. Í 3. gr. stendur núna:

,,Menntamálaráðuneytið fer með yfirumsjón íþróttamála að því leyti er ríkið lætur þau til sín taka. Í því skyni aflar ráðuneytið upplýsinga um iðkun íþrótta í landinu`` --- við viljum bæta þar við: stöðu jafnréttismála í íþróttum --- og síðan kemur óbreytt: ,,og aðstöðu til íþróttastarfs og stuðlar að rannsóknum á sviði íþróttamála.`` Það er að segja við viljum að þarna komi inn í 3. gr. viðbótarorðin ,,stöðu jafnréttismála í íþróttum`` og teljum að í raun og veru sé það bara til þess að undirstrika þann vilja sem ég tel að hafi komið fram hjá meiri hluta nefndarinnar og vona svo sannarlega að meiri hluti nefndarinnar geti samþykkt þessa tillögu.

Sama á við um brtt. við 8. gr. Þar er aðeins hnykkt á. Það er enginn aukakostnaður eða neitt slíkt en þar er þó verið að fjalla um fjármuni, en það kemur í ljós að það er verulegur munur á því hverju eytt í kvennaíþróttir miðað við karlaíþróttir og þess vegna leggjum við til að niðurlaginu á 8. gr. verði breytt. Nú stendur þar:

,,Í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur að fengnum tillögum íþróttanefndar, má kveða á um skilyrði fyrir styrkveitingum úr Íþróttasjóði og hvernig umsóknum og úthlutun skuli hagað.`` --- Þarna viljum við bæta við: m.a. með tilliti til stöðu kynja í íþróttum.

Þetta er í anda samþættingar, eins og hæstv. jafnréttisráðherra vill orða það og segir okkur að það sé stefna núv. ríkisstjórnar að reyna að samþætta jafnréttismálin inn í sem allra flest mál. Ég tel einmitt að þessar tillögur séu þannig tillögur. Þær kosta ekkert beint en eru til þess að minna á þessi mál og ég vona svo sannarlega að meiri hlutinn geti tekið undir þessar brtt. því að þær eru alveg í þeim anda sem um var rætt í tengslum við þær skýrslur. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að þarna væru betri tryggingar en þá hefði þurft annars konar frv. og við látum þetta því duga að sinni.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara ítarlega í efni þessara skýrslna eða í þetta frv. Ég er í meginatriðum sammála því og tel að það sé til bóta og þess vegna ætla ég að láta þetta duga.