Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:16:51 (7329)

1998-06-02 23:16:51# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:16]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Fyrst ein spurning: Hver kjör skyldu öryrkjum vera búin á Íslandi í dag? Öryrki sem býr einn getur í hæsta lagi fengið rúmar 63 þús. kr. á mánuði. Þetta eru ekki miklir peningar í þjóðfélagi sem er að færa lágmarkslaun upp í 70 þús. kr. og þykir flestum það vera allt of lágt. En þetta á við um öryrkja sem býr einn því í sambúð getur öryrki að hámarki fengið 43.722 kr., þ.e. örorkubætur að upphæð rúmlega 15 þús. kr. og tekjutryggingu sem nemur 28.600 kr.

Það segir sig sjálft að við slík kjör leitast makinn við að afla viðbótartekna en geri hann það skerðist tekjutryggingin. Hún byrjar að skerðast afli makinn 38.677 kr. á mánuði og þurrkast alveg út ef hann nær að afla 165.800 kr. á mánuði. Nái hann því marki er öryrkinn sviptur allri tekjutryggingu og getur einungis lagt með sér í búið rúmar 15 þús. kr. á mánuði.

Þetta eru ekki há viðmiðunarmörk, að tekjutrygging skuli byrja að skerðast við 38.600 kr. og þurrkast alveg út við 165.800 kr. á mánuði. Hafa menn hugsað út í það hver viðmiðunarmörkin eru sem skattyfirvöld og sú ríkisstjórn sem stýrir þessu landi okkar setur fólki sem hefur framfæri sitt af fjármagnsgróða, sem hefur tekjur af vöxtum af fjármagni? Hver skyldu skattleysismörkin þar vera? Hver skyldu þau vera? Þau eru 5,9 millj. --- 5,9 millj. kr. geta hjónin aflað án þess að greiða eina einustu krónu til samfélagsins. Og ríkisstjórn sem setur skattleysismörk fjármagnsgróða hjá hjónum í 5,9 millj. refsar öryrkjanum sem vogar sér að ganga í hjónaband og færir tekjur hans niður úr rúmum 63 þús. kr. í 15 þús. kr. Þetta er að gerast á Íslandi í dag og ég hvet hv. alþingismenn til að fylgjast með réttindabaráttu Öryrkjabandalagsins til að hnekkja þessu ranglæti og við sem sitjum á Alþingi eigum að taka þar undir.

Ég ætla að vitna hér í örfáar setningar úr greinargerð kjaramálanefndar Öryrkjabandalagsins, sem Helgi Seljan og Garðar Sverrisson rita nöfn sín undir. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Fyrirkomulag þetta gengur þvert á þær réttarhugmyndir sem gilda um atvinnuleysisbætur, lífeyrissjóðsgreiðslur og aðrar tryggingabætur og gerir í raun ráð fyrir því að öryrkjar taki ekki upp sambúð með öðrum en þeim sem möguleika hafa á að fæða þá og klæða, taka þá algerlega á sitt framfæri. Ekki þarf neina sérþekkingu á högum öryrkja til að sjá í hendi sér hvílík áhrif svona reglur hafa á hjónabönd fólks og möguleika til sambúðar. Ofan á þá byrði sem sjálf örorkan er kemur þetta eins og viðbótarhögg frá yfirvöldum, viðbótarrefsing fyrir það eitt að vera í hjónabandi eða sambúð.``

Hæstv. forseti. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi. Þetta stríðir gegn allri sanngirni. Þetta stríðir gegn mannréttindum og mannréttindabrot ber að afnema skilyrðislaust og undanbragðalaust og það ber að gera það þegar í stað.