Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 11:49:05 (7366)

1998-06-03 11:49:05# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, Frsm. meiri hluta EOK
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[11:49]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er ég meðflm. hv. þm. Péturs H. Blöndal að brtt. um skattprósentu fyrirtækjanna, að hún verði færð niður í 28% þannig að það kemur skýrt fram að efnislega er mikill ágreiningur innan nefndarinnar. Nefndin leggur til að hún verði 30% eins og frv. gerir ráð fyrir. Þrír valinkunnir þingmenn flytja tillögu um að halda henni í 32%. Við flytjum tillögu um að færa hana niður í 28%.

Í greinargerð þeirra þremenninga, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, Ágústs Einarssonar og Sighvatar Björgvinssonar er efnislega allt ósannindi og hreinlega rangt farið með alla efnisþætti þessa máls og ótrúlegt að svo valinkunnir sæmdarmenn skuli láta hafa slíkt eftir sér á prenti. Ekki bætti ræða frsm., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um þegar farið var yfir efnisatriði málsins.

Í fyrsta lagi er rangt að skattalegt umhverfi íslenskra fyrirtækja sé með því lægsta sem þekkist í OECD eins og stendur í greinargerð þeirra. Það er bara rangt. Um það liggja allar skýrslur fyrir og er hægt að sýna fram á það. Það sem við höfðum til viðmiðunar þegar við fluttum brtt. okkar um að fara niður í 28% er einmitt það að alls staðar á Norðurlöndum er nú miðað við 28%. Prósentan er 28% í Noregi, hún er 28% í Svíþjóð, hún er 28% í Finnlandi og danska þingið hefur nú til meðferðar tillögur ríkisstjórnarinnar um að færa skattprósentu danskra fyrirtækja niður í 28%. Spurningin er þá: Eru þá öll Norðurlöndin með skattprósentu á fyrirtæki sem er fyrir neðan öll sanngirnismörk eins og hv. þm. Steingrímur orðaði það í ræðu sinni? Auðvitað er það ekki enda er þetta ekki spurning um sanngirnismörk.

Í hverju landi er það starfsumhverfi fyrirtækjanna og samkeppnisumhverfi sem skiptir öllu máli um hvernig þeim vegnar. Við erum ekkert eyland í heimi viðskiptanna. Þetta er allt ein heild og örlög okkar og afkoma miðast við hvernig okkur tekst til í atvinnurekstri okkar.

Ég get alveg fallist á þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals að það hefði þurft að lækka þetta enn þá meira til að koma til móts við þá breytingu sem skattfrádrátturinn hefur í för með sér. En ég féllst á að það væri líklega rétt að gera þetta svona því að við ættum og hefðum svo oft miðað löggjöf okkar eins mikið og við getum við hin Norðurlöndin, þá værum við með sömu prósentu og öll Norðurlöndin og rétt væri að halda sig við það. Hvort einhver prósenta er of há eða lág snýst um það hvort við berum gæfu og skynsemi til þess að haga því svo að grundvöllur fyrirtækjanna fái staðist.

Þegar menn tala um skattalega stöðu gleyma menn því oft að íslensk fyrirtæki og ekki síst sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að glíma við það núna í mörg ár að reyna að borga til baka gríðarlegan taprekstur upp á milljarða og aftur milljarða sem á sér stað sérstaklega á áttunda og níunda áratugnum. Hvað er taprekstur útflutningsframleiðslunnar? Er það eitthvað sem kemur af himnum ofan? Nei. Taprekstur útflutningsframleiðslunnar kom til af því að við vorum með eilífa efnahagsóstjórn allan áttunda og níunda áratuginn. Við fórum hvað eftir annað með raungengi upp úr öllu valdi þannig að engin útflutningsframleiðsla fékk staðist. Tapreksturinn er arfur frá þeim tíma og við verðum að koma okkur út úr því þannig að við höfum verið að borga þau syndagjöld sem sú óstjórn hafði í för með sér.

Það er staðreynd og liggur fyrir og menn geta séð það í öllum plöggum og þarf ekki um það að deila að arður af eigin fé í atvinnurekstri á Íslandi er mun lægri en í öllum samkeppnislöndum okkar og það að hann skuli vera svo lágur og oft og tíðum nánast enginn hefur skaðað íslenskt samfélag meira en nokkuð annað og komið í veg fyrir að við gætum bætt lífskjör eins og efni hefðu kannski staðið til. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Það að við ætlum að reyna af fremsta megni að snúa þessu við eins og við reyndum að gera í upphafi þessa áratugar var m.a. fólgið í því að búa til það starfsumhverfi á Íslandi að íslensk fyrirtæki gætu starfað á svipuðum grundvelli og fyrirtæki í nágrannalöndunum sem skiptir öllu máli til þess að fyrirtækin geti borgað laun. Þetta snýst allt um að geta borgað laun. Það að við höfum borið gæfu til þess að koma okkur út úr þeim hremmingum efnahagsóstjórnarinnar sem einkenndi öll mál í 20 ár þannig að þessi áratugur hefur verið áratugur jafnvægis er m.a. fólgið í því að reyna að búa til starfsumhverfi fyrir fyrirtækin þannig að þau geti borgað laun og greitt laun. Þannig hefur árangurinn náðst á Íslandi að við höfum verið að hækka kaupmátt á Íslandi á undanförnum árum meira en nokkur önnur þjóð í Evrópu þrátt fyrir að hagvöxtur er meiri í nokkrum löndum Evrópu en á Íslandi, t.d. í Noregi. Hagvöxtur er meiri í Noregi en á Íslandi. Þó hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist mun hraðar á Íslandi en í Noregi. Þetta er sá árangur sem menn eru að stefna að og þetta er sá árangur sem við höfum verið að ná vegna þess að okkur hefur tekist að halda okkur þannig á þessum mjóa stíg að fyrirtækin hafa verið fær um það að auka launagreiðslur, að auka kaup. Það sem við stöndum frammi fyrir núna er eðlilega og að sjálfsögðu að íslenskir launþegar munu gera kröfu til þess að áframhald verði á þeirri þróun að kaupmáttur aukist á Íslandi. Ekki er nóg að segja: Jú, ég vil endilega hækka kaupið. Það geta allir sagt og gert.

Í lok ársins 1999 eða á næsta ári kemur að því að við þurfum að standa að því að gera nýja kjarasamninga, vonandi til langs tíma og þá þurfa fyrirtækin að geta verið í stakk búin til þess að mæta þeim kröfum sem við vitum að muni verða lagðar fram. Til þess að gera það verðum við að byrja núna að undirbúa það þannig að tekjuskattur á íslensk fyrirtæki á og þarf að vera sá sami og á Norðurlöndunum. Þess vegna flytjum við tillögu um að hann skuli vera 28%, sá sami og á Norðurlöndum.

Ef við lítum á OECD-tölurnar um skatta fyrirtækja kennir þar ýmissa grasa. Þau fyrirtæki sem eru með lægsta skatta í Evrópu eru í ríkjunum sem nýkomin eru undan hernámi sósíalista, ríkjunum þar sem allt hefur grotnað niður í eymd, volæði og skelfingu síðustu 40--50 ár. Það eru fyrirtæki sem eru að koma sér út úr þeirri neyð sem fylgdi sósíalismanum.

Lægst í þessum ríkjum er Ungverjaland sem er að láta fyrirtæki sín borga 18% tekjuskatt vegna þess að þar ríður meira á en annars staðar að reyna að ýta upp lífskjörunum eftir þær hörmungar sem yfir þá hafa dunið.

Það er líka athyglisvert hvaða ríki Evrópu það er sem hefur hæstan tekjuskatt af fyrirtækjum. Það er Ítalía með 52,2% en allir vita um þá ágætu þjóð Ítali að þar er allt í rusli sem getur verið í rusli og það er von að þessir ágætu flutningsmenn vilji þá kannski benda á að það sé til fyrirmyndar. Það sé Ítalía sem er með hæstan tekjuskatt.

Það er einnig mjög rangt sem kemur fram í greinargerð þeirra félaga um að átt hefði sér stað flutningur á sköttum frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga með afnámi aðstöðugjaldsins. Þetta er beinlínis mjög rangt. Eins og allir aðrir veltuskattar kemur aðstöðugjaldið beint fram í verðlagi. Það var mjög hyggileg ráðstöfun hjá fyrrv. ríkisstjórn að afnema aðstöðugjaldið vegna þess að það reið mjög mikið á á þessum árum að sanna það fyrir öllum að við gætum náð stöðugleika í verðlagi. Afnám aðstöðugjaldsins kom beint fram í verðlagi og um það liggja fyrir margar sannanir, bæði íslenskar og erlendar að allir slíkir skattar koma beint fram í verðlaginu. Hækki veltuskattar þá hækkar verðlagið, lækki þeir þá hjaðnar verðlagið að sama skapi. Hér er beinlínis farið rangt með. Það er alls ekki verið að auka álög á einstaklinga með þessu. Einstaklingarnir fengu það fullkomlega bætt í því vöruverði sem þeir náðu fram, fengu það fullkomlega bætt. Hér er því verið að fara með svo mikil ósannindi að það má furðu gegna að svo valinkunnir menn láti þetta fara frá sér á prenti.

Það er líka ljóst að ekki er um svik við verkalýðshreyfinguna að ræða að færa skattprósentu íslenskra fyrirtækja niður í sömu tölu og annars staðar á Norðurlöndum, að það sé svik við launþega Íslands að skattprósentan sé hin sama hér og annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er einmitt aðferðin til að geta borgað laun að vera með umhverfi fyrir fyrirtækin þannig að tekjur myndist og við getum borgað há laun.

Við þurfum að ná samningum eftir eitt og hálft ár við verkalýðshreyfinguna, við launþega í landinu. Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er ekki seinna vænna að undirbúa það núna með því skattalega umhverfi sem fyrirtækin búi við, geri það núna með því að hafa þá prósentu þá sömu á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Ef það er fyrir neðan velsæmismörk, ef það eru svik við launþega, þá þætti mér gaman að heyra þessa góðu flutningsmenn skýra það út fyrir mér.