Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 22:13:39 (7403)

1998-06-03 22:13:39# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[22:13]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Sameinaðir bandamenn okkar sem skipum stjórnarandstöðuna á Alþingi, sameiginlegu framboðin um land allt voru sigurvegarar byggðakosninga um næstsíðustu helgi. Forustufólk Alþb., Kvennalista og jafnaðarmanna hefur bæði skilning á aðstæðum og þeim möguleikum sem eru í stöðunni. Það talaði líka eins og sigurvegarar.

Sama verður ekki sagt um formann Sjálfstfl. Þar fór hreint enginn sigurvegari með blik í auga og trú á framtíðina, heldur geðstirður tapari sem virtist enn í vafa um hvert rétt væri að beina gremjunni. En landsföðurhamurinn er fallinn. Hann og aðrir forustumenn í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vissu líka það sama og forustumennirnir okkar sigurreifu, að hinn stóri sigur nýs framboðs jafnaðarmanna felst í því að nánast alls staðar hefur tekist gott samstarf helstu forustumanna í héraði og fólkið finnur þann kraft sem í samstöðunni felst.

[22:15]

Kosningaúrslitin sýna líka að nýtt og öflugt stjórnmálaafl er orðið til, afl sem fékk 37% í fyrstu kosningunum rétt eins og skoðanakannanir hafa sýnt að gæti orðið raunin í alþingiskosningum. Hið nýja afl er orðið stærst eða næststærst í miklum meiri hluta kaupstaðanna í landinu. Enn eigum við eftir að nýta þann skapandi kraft sem í samvinnunni felst og samhæfing á landsvísu mun einnig skila okkur stuðningi og fylgi. Það vissu líka forusta og vinir ríkisstjórnarinnar sem birtust okkur sem taparar á kosninganótt. Ekki veit ég hvort það var tilraun til að stilla geð forsrh. að reynt var að halda því fram að flokkur hans væri sérstakur sigurvegari. Það dugði a.m.k. ekki, því auðvitað vissi hann og veit enn að fylgið hefur staðið í stað frá síðustu kosningum og er til muna lakara en það var í kosningunum þar á undan. Hann óttast líka þann sprengikraft sem felst í því að hreyfing jafnaðarmanna á Íslandi verði aftur sameinuð eftir margra áratuga sundrungu þar sem Sjálfstfl. hefur setið á hinum fræga fjósbita og fitnað langt umfram burði.

Herra forseti. Við staðhæfum líka að sameinað afl jafnaðarmanna og félagshyggjufólks, sem gæti tekið við forustu í landsmálum að loknum næstu kosningum, muni verða til þess að fólkið í landinu hafni ríkisstjórn sérhagsmuna. Fólkið í landinu mun hafna ríkisstjórn sem án hiks afhendir viðbótarkvóta upp á milljarða án endurgjalds og mest til þeirra sem mest höfðu fyrir. Ríkisstjórn sem afhendir landeigendum öll verðmæti sem kunna hugsanlega að finnast í jörðu og setur þannig sérhagsmuni alltaf framar almannahag. Ríkisstjórn sem með einni löggjöf lofar fólki þjóðareign á miðhálendinu en býr þannig um hnúta með þeirri næstu að skipulag og nýting verður á höndum fárra rétt eins og þegar fiskimiðin eiga í hlut. Auðvitað mun fólkið hafna slíkri ríkisstjórn þegar valkostur okkar verður til, sem setur almannahag í forgrunn en lætur sérhagsmuni víkja. Það mun hafna ríkisstjórn helmingaskiptanna þar sem samtryggingin er fyrsta boðorðið og Lindarmál eru leyndarmál.

Herra forseti. Framkomu manna, líka forsrh., hljóta að vera einhver takmörk sett, jafnvel þótt þeir séu hræddir og hafi til þess ríkar ástæður. Satt að segja var ótrúlegt að fylgjast með því hvernig Davíð Oddsson valdi sér ríkissjónvarpið sem sérstakan andstæðing og setti í gang galdraofsóknir gagnvart fréttamönnum þess. Fyrir utan það hversu ósmekklegar órökstuddar fullyrðingar hans voru, var óttalegt að kynnast þeim hugarheimi sem að baki býr. Hugarheimi sem gengur út frá því að fólk séu fjarstýrðar vélar í þágu valds og þannig eigi að umgangast það.

Herra forseti. Við erum öll orðin þreytt á hroka og yfirgangi, samtryggingu og sérhagsmunadekri. Samfylking jafnaðarmanna þar sem almannahagur skipar öndvegi er svarið og brýnna nú en nokkru sinni fyrr.