Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 19:09:03 (7508)

1998-06-04 19:09:03# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[19:09]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Ef ég skildi hv. þm. rétt þá var hann að inna mig eftir afstöðu minni til tillögu sem hann hefur lagt fram um úttekt á áhrifum Schengen-aðildarinnar á innflutning fíkniefna hingað til lands. Ég er ekki kunnugur þessari tillögu í smáatriðum en mér finnst ekkert að því að slík úttekt sé gerð.

Nú hefur hv. þm. margoft lýst skoðun sinni á Schengen-samkomulaginu og mér finnst að honum beri a.m.k. réttur til þess að fá könnun á afleiðingum þessarar aðildar. Þetta er einn mögulegur þáttur. Ég tel að það sé sjálfsagt að menn verði við því. Ég er því miður ekki í allshn., annars mundi ég hjálpa honum til þess að fá málið samþykkt að því leyti.

Hv. þm. gat þess hins vegar að við höldum enn okkar rétti til tollgæslu. Ég hygg að hann hafi verið að draga það fram að ef af þessu yrði, sem hv. þm. er mótfallinn, þá yrði a.m.k. að bregðast við með því að auka fjármagnið sem veitt er til tollgæslu. Það er auðvitað eitt af því sem menn þurfa að gera. Reyndar tel ég, án tillits til þess hvort við erum í Schengen eða ekki --- hv. þm. er þeirrar skoðunar og það er sennilega rétt hjá honum --- að eftirlitið þurfi að efla snöggt um meira ef af aðild verður.

Hæstv. heilbrrh. greindi frá því í ræðu sinni áðan að verið væri að stórefla tollgæsluna. Ég á von á því að hæstv. ráðherra muni skýra það fyrir hv. þm. á eftir hvernig því sé háttað. Ég get ekki greint honum frá því.