Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 21:19:36 (7515)

1998-06-04 21:19:36# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[21:19]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þessa áhættuhópa þá veit ég að á því hefur verið tekið að hluta með samningum við sveitarfélög. Hins vegar er alveg jafnljóst og hefur komið fram ítrekað frá félagsráðgjöfum og frá sálfræðingum að þarna er tekið á eins og til þyrfti.

Árið 1995, þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna, þá var hlutverki skólaskrifstofu eða sálfræðinga starfandi á skólaskrifstofu breytt. Þeir áttu aðeins að greina vandann og vísa vandamálinu annað frá sér. Það eru ekki starfandi sálfræðingar vítt og breitt um landið sem geta tekið þau börn sem þurfa til meðferðar ef þau eru í áhættuhópum, hafa orðið fyrir einhvers konar áföllum og eru þess vegna í mikilli áhættu með það að fara að neyta fíkniefna. Það eru mjög stór svæði á landinu þar sem þessi þjónusta er ekki til staðar.

Ofan á það að þurfa að borga þrjú til fjögur þúsund krónur fyrir hvern tíma hjá sálfræðingi eða félagsráðgjafa fyrir barn sem þarf á aðstoð að halda þá þarf oft á tíðum að greiða mjög háar upphæðir líka fyrir það að fara á milli staða. Bara t.d. flug frá Austfjörðum til Reykjavíkur. Þetta er verulegt vandamál, þetta er þekkt vandamál sem við höfum því miður ekki borið gæfu til þess að taka á.

Ég tel að þó að það sé gott og nauðsynlegt að hafa sterkar fyrirmyndir, íþróttamenn, fegurðardrottningar eða eitthvað slíkt fyrir börn og ungmenni þá teldi ég að áherslan ætti fyrst og fremst að vera á þessa áhættuhópa. Og miðstöðin sem opnuð hefur verið hér í Reykjavík, hefur ekki skilað hlutverki sínu nægjanlega vel að því leytinu til miðað við það sem foreldrar hjá Vímulausri æsku segja. Þeir eru með opinn símann allan sólarhringinn til þess að taka við þeim vandamálum sem upp kunna að koma hjá foreldrum ungra fíkla. Þau hafa sótt eftir styrk sem þau telja sig ekki hafa fengið til þess að leysa þessi vandamál.