Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:03:28 (7519)

1998-06-04 22:03:28# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það fjármagn sem hefur farið til fræðslustarfa þá er ég ekki að tala um frjálsu félagasamtökin heldur er ég að tala um það sem Krabbameinsfélagið og tóbaksvarnanefnd hefur lagt beint til skólanna. Menntmrn. hefur lagt nokkuð til jafningjafræðslunnar og það höfum við líka gert en til frjálsra félagasamtaka hafa trúlega farið svona í kringum 25 millj. beint í forvarnir.

Varðandi aðra þætti sem hv. þm. kom inn á, sérstaklega um dómsmrn., og krafðist svara af minni hálfu hvernig dómsmrn. hafi nýtt það fjármagn sem til þess fór, svaraði ég því áðan að ég treysti því að það sé til að styrkja löggæsluna eins og til var ætlast. Í sambandi við einstök atriði, tækjakaup, sem hv. þm. vék að verð ég að viðurkenna að það þekki ég ekki en hún getur þá spurt hæstv. dómsmrh. að því. En mig langar að segja af því þetta er síðasta andsvarið við hv. þm. um þetta mál sem hér liggur fyrir að það er ekki grundvallarágreiningur því að menn hafa verið sammála því að áfengisvarnaráð sem slíkt hafi runnið sitt skeið og það þurfi að takast á við þennan þátt með nýjum hætti. Þó að menn nái ekki nákvæmri samstöðu um það heyrist mér að ekki sé mikill mismunur á skoðunum. Við erum a.m.k. öll að róa á sömu mið.