Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 12:26:55 (7601)

1998-06-05 12:26:55# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., SighB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[12:26]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hér hefur verið sagt að sú umræða sem farið hafi fram á Alþingi upp á síðkastið um þessi mál sé fyrir neðan virðingu þess. Hér hefur verið sagt að óeðlilegt sé að pólitískir aðilar fjalli um þau. Þarna greina menn kjarna málsins. Hann er sá að ekkert af þessum málum hefði komið fyrir almenningssjónir ef ekki hefði komið til íhlutun alþingismanna. Ekkert hefði verið upplýst, hvorki um Landsbankann né Lind ef ekki hefði komið til atbeini alþingismanna. Þá væri engin opinber rannsókn á málefnum Lindar. Þá sætu bankastjórarnir enn, virðulegi forseti.

Þessa aðstöðu þingmanna á nú að reyna að stöðva. Það á að reyna að koma í veg fyrir að Alþingi geti áfram beitt því valdi sem það hefur beitt með þeim árangri sem ég lýsti áðan. Forustumenn þingflokka stjórnarliða eru jafnframt að reyna að koma í veg fyrir að þingmenn stjórnarinnar þurfi að taka efnislega afstöðu til þess að kosin verði rannsóknarnefnd á Alþingi sem stjórnarflokkarnir hafi sjálfir meiri hluta í. Þeir treysta sér ekki einu sinni til að una því að fela nefnd rannsóknarvald, sem stjórnarflokkarnir sjálfir hefðu meiri hluta í. Ég segi nei.