Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:42:24 (38)

1997-10-02 22:42:24# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SighB
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:42]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það vafðist ekki fyrir mér tekjutengingin, sagði hæstv. forsrh., í síðustu ríkisstjórn. Það var nú einmitt það sem gerðist. Því eins og hann veit mætavel sjálfur þá margfór ég þess á leit í þeirri ríkisstjórn að fá samvinnu við fjmrh. um að endurskoða tekjutenginguna í tryggingakerfinu. Og ég leitaði til hæstv. forsrh. um aðstoð í því efni að fá það fram og ég fékk hana en ekki fyrr en örfáum mánuðum áður en ríkisstjórnin lét af völdum svo það hefði komið í annarra hlut að framkvæma málið.

Hæstv. forsrh. er gamansamur maður. Hann segir hér á einum stað í texta sínum sem hann flutti áðan: ,,Við alþingismenn eigum ekki endilega að telja okkur helst til tekna að fjöldi nýrra laga sé settur. Það er ekki keppikefli að þenja út lagasafnið.`` Síðan sendir hann okkur alþingismönnum fylgirit með þessari ræðu sinni þar sem hann telur upp lagafrumvörpin sem ríkisstjórnin ætlar að setja á komandi þingi --- þau eru 150 talsins. Það samsvarar því að Alþingi setji ný lög á hverjum einasta starfsdegi. Þannig rekur sig nú eitt á annars horn í málflutningi þessa gamansama ráðherra.

Það var sagt hér áðan af hv. þm. Guðna Ágústssyni að hann sótti til Þýskalands eftir máltæki sem hann þurfti að nota: ,,Ef þú segir já við lífið þá segir lífið já við þig.`` Hv. þm. þarf ekkert að sækja út fyrir landsteinana. Hér á Íslandi segir Megas: ,,Smælaðu framan í heiminn og þá mun heimurinn smæla framan í þig``.

Í mjög merkilegu viðtali við Dag -- Tímann taldi hv. þm. það helstan löst á forustumönnum Framsfl. að þeir væru svo leiðinlegir, þeir kynnu ekki að brosa. Hv. þm. þarf þá að kenna þeim að smæla svolítið framan í heiminn áður en heimurinn fer að smæla framan í þá.

Síðan ræddi hæstv. viðskrh. um góða afkomu ríkissjóðs. Ríkissjóður ætlar að selja eignir upp á 6,5 milljarða kr. til að fá fram jákvæðan rekstrarafgang upp á 500 milljónir. Mér finnst það nú ekki merkilegur búskapur satt að segja, hæstv. forseti. Þetta er svona svipað og menn fjármagni hjá sér efri hæðina með því selja kjallarann og það er nú ekki mjög skynsamleg aðferð í ríkisrekstri, hæstv. viðskrh.

Framtíðarsýn --- talar formaður þingflokks Sjálfstfl. um. Það er enga framtíðarsýn að finna í ræðu hæstv. forsrh. Framtíðin er þar sett í biðstöðu. Hún er ekki á dagskrá fremur en t.d. Evrópusambandið. Það er ekki eitt aukatekið orð um framtíðina í stefnuræðu hæstv. forsrh. Hann minnist ekki einu sinni á að hún sé á leiðinni.

Hvað er framtíðarsýn? Framtíðarsýn er það að sjá fyrir sér breytingu á því pólitíska landslagi sem tvær kynslóðir Íslendinga hafa búið við, að vinna bug á því helmingaskiptakerfi auðs og valda sem einkennt hefur stjórnmálin hjá þessari þjóð í yfir 70 ár. Það er framtíðarsýn. Að þeirri framtíðarsýn vinna nú jafnaðarmenn í sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Það er okkar verk, virðulegi forseti, að láta þá framtíðarsýn rætast.