Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 16:11:03 (68)

1997-10-06 16:11:03# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Mér finnst ekki sæmandi að ljúka þessum umræðum með þeim hnjóðsyrðum sem hv. síðasti ræðumaður lét falla í garð okkar sem höfum staðið að því að koma þessu þó í þann farveg sem það er og síst af öllu í garð hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem tók að sér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að leiða þennan starfshóp.

Ég skipaði engan starfshóp um málið. Ég beitti mér hins vegar fyrir því að starfshópur sem fjallar um verkaskiptingu í þágu fatlaðra ... (Gripið fram í.) Forsrh., þetta er málefni forsrn. og það kom fram hér að þetta væri nefnd sem starfar á vegum forsrn. til þess að fjalla um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins á málefnum fatlaðra. Þannig er, að eins og hv. þm. Sigríður Anna gat um þá barst áskorun hinn 30. apríl 1997 frá Félagi heyrnarlausra sem lýkur á þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Félag heyrnarlausra skorar hér með á ríkisstjórn Íslands að tryggja rétt heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufdumbra í túlkaþjónustu í lögum hið snarasta og viðurkenna íslenskt táknmál sem móðurmál okkar.``

Og í bréfi 24. júní til hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur felur forsrn. þeim starfshópi sem starfar á þess vegum erindið með eftirfarandi orðum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Jafnframt samþykkti ríkisstjórnin að beina því til starfshóps þess er þér leiðið um verkaskiptingu ráðuneytis í þágu fatlaðra og fleira að fjalla um og taka upp í skýrslu sína tillögur um frambúðarlausn málsins.`` Þannig að málið liggur alveg skýrt fyrir. Það er unnið að þessu skipulega á vegum forsrn. vegna þess að hér er málefni sem varðar fleiri en eitt ráðuneyti. Ég tel að málið sé í góðum höndum undir formennsku hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur.