Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 17:14:11 (81)

1997-10-06 17:14:11# 122. lþ. 3.8 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er að reyna að ræða þetta mál málefnalega við hæstv. heilbrrh. og ég vænti þess að það sé ekki viljandi sem hún hefur verið að draga þetta mál svona talsvert langt út í móa með því að taka hér dæmi sem ekki voru nefnd af okkur sem tókum þátt í þessari umræðu fyrr í dag. Hún nefnir það að eðli málsins samkvæmt hafi einstaklingur sem er orðinn aldraður eða örkumla engan náinn venslamann til þess að sjá um sig og þess vegna séu það einmitt slíkir menn sem vilji komast sem fyrst inn á einhverjar stofnanir. Hæstv. ráðherra fer fullkomlega með rétt mál í þessum efnum. En það sem við erum að tala um með þessu frv. er einfaldlega að hjálpa þeim sem hafa venslamenn. Við vitum um dæmi þess að tengdabörn jafnvel, börn eru reiðubúin til þess, jafnvel um eitthvert árabil, að gefa upp launuð störf til þess að annast einhvern sem þeim þykir mjög vænt um og sem þau hafa tengst í gegnum allt sitt líf, annast hann á heimili viðkomandi. Það er göfug hugsun, það felur í sér ákveðna fórnfýsi af hálfu þeirra, en er þá ekki sanngjarnt að ríkið komi með einhverjum hætti til móts við þetta fólk? Það er kannski ekki einu sinni sjálfgefið að ríkið geri það. En ef við ætlum að nota þann mælikvarða sem hæstv. heilbrrh. hefur í vaxandi mæli beitt á þau mál sem hún er að véla um, þ.e. krónur og aura, þá hlýtur niðurstaðan líka að vera sú að þetta geti sparað þegar til langs tíma er litið. Og ég spyr hæstv. heilbrrh.: Telur hún ekki að þetta auki svolítið á lífshamingju þeirra sem eiga um sárt að binda og kannski ekki mikið eftir, að geta fengið að vera heima hjá sér með venslafólki sínu? Telur hún ekki líka að þetta geti sparað, þegar til langs tíma er litið og allt er tínt til, fjármagn fyrir hið opinbera? Ég held að það sé engin spurning um það.

Ég sagði áðan, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. hefði reynt að teyma þetta mál út í móa. Ég gæti fært ýmis rök fyrir því en það er kannski ekki rétt að tefja þessa umræðu lengur. En mér þætti samt vænt um að hæstv. ráðherra kæmi og svaraði þessu.