Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:34:23 (108)

1997-10-07 17:34:23# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:34]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á það sem hv. þm. sagði í upphafsorðum sínum þegar hann gagnrýndi annan oddvita ríkisstjórnarinnar fyrir að hafa opnað sendiráð í Helsingfors án þess að leita eftir samþykki þingsins og gert það með þeim hætti að hv. þm., sem er varaformaður fjárln., vissi ekki um hvað til stóð fyrr en hann fékk boðskort um að mæta í veisluna. Þetta er ein harðasta gagnrýni á formann Framsfl. sem komið hefur frá Sjálfstfl. eða þingmönnum hans. En það er ekki að ástæðulausu vegna þess að í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1997 kemur fram að þar gerir utanrrn. ráð fyrir því, þetta litla ráðuneyti, að fá í fjáraukalögum 182 millj. kr. í aukafjárveitingar. Þar eru hlutir eins og almennur rekstur upp á 40 millj. kr. þannig að ákvörðunin um nýtt sendiráð í Helsingfors sem áætlað er að kosti rúmlega 7 millj. kr. er hjóm hjá þeim ákvörðunum um aukafjárveitingar sem hæstv. ráðherra, formaður Framsfl., hefur tekið í þessu litla ráðuneyti. Stórir hlutar þess eins og fram kemur hér, virðulegi forseti, um þátttöku í sýningu í Lissabon á vegum íslenska ríkisins fyrir 60 millj. kr., er tekin án fjárheimilda. Alþingi skuldbundið til að greiða í þetta eina verkefni 60 millj. kr. án fjárheimilda. En það vill svo til að hv. þm. Sturla Böðvarsson kastar steini úr glerhúsi. Hvenær skyldi það hafa verið gert að einn ráðherra taki ákvörðun um 80 millj. kr. aukafjárveitingu í húsnæði fyrir sjálfan sig? Það gerir hæstv. forsrh. því hann gerir ráð fyrir því að á fjáraukalögum yfirstandandi árs komi 60 millj. kr. í aukafjárveitingu til að gera upp skrifstofu hans eftir að hafa veitt sjálfum sér með sama hætti 25 millj. kr. fjárveitingu í fyrra. Það hallast ekki á með þessum tveimur ágætu ráðherrum.