Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:35:33 (120)

1997-10-07 18:35:33# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í frv. hvaða framkvæmdir það eru sem ætlunin er að ráðast í fyrir framhaldsskólana. Sérstök tafla er birt á bls. 332 um það í hvaða stofnkostnaðarframkvæmdir á að ráðast í framhaldsskólunum. Þar sjá menn hvaða framkvæmdir það eru sem á að fjármagna á næsta ári. Einnig kemur fram í fjáraukalagafrv. sem liggur fyrir að til Menntaskólans í Reykjavík verður varið samkvæmt því frv. 60 millj. kr. til að búa betur að þeim skóla hvað húsnæði varðar. Framkvæmdir á framhaldsskólastiginu eru því miklar og ég sé ekki ástæðu til þess að menn haldi áfram framkvæmdum aðeins framkvæmdanna vegna. Að sjálfsögðu þarf að skilgreina þarfir og það þurfa að vera raunhæf verkefni sem menn takast á við. Ég nefndi áðan að á höfuðborgarsvæðinu hafa bæst við 18.000 m2 á undanförnum missirum í framhaldsskólum. Ég hef á undanförnum 12 mánuðum tekið þátt í að taka í notkun húsnæði í fimm framhaldsskólum, á Akureyri, á Neskaupstað og þremur á höfuðborgarsvæðinu og auk þess hefur verið bætt við húsnæði skólans í Vestmannaeyjum. Síðan er í frv. listi yfir þær framkvæmdir sem eru á döfinni þannig að menn sjá af þessu að fráleitt er að halda því fram að ekki sé unnið að stofnframkvæmdum að því er framhaldsskólana varðar.

Um reiknilíkanið og þær grundvallarreglur sem mótaðar eru í því, þá er það rétt að horfið er frá þeirri reglu að miða við innritaða nemendur og tekið upp að miða við virka nemendur. Þetta er stefnubreyting og hún er skýrð í frv. Hún byggist á faglegum sjónarmiðum og um hana er samkomulag á milli þeirra aðila sem að því máli hafa unnið.

Um fjárveitingar til einstakra skóla verða menn að líta í frumvarpsgreinarnar sjálfar því þar kemur fram hvaða fjárveitingar eru ætlaðar til hvers skóla fyrir sig, en ekki í greinargerðinni.