Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 20:08:04 (136)

1997-10-07 20:08:04# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[20:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fullorðinsfræðslu þá er það svo að verið er að endurskipuleggja hana. Samkvæmt framhaldsskólalögunum ber þeim sem stunda fullorðinsfræðslu að standa sjálfir undir kostnaði við námið og ráðuneytið fer að sjálfsögðu að lögum varðandi þetta. Við erum hins vegar að leggja á ráðin um það hvernig best verði að þessu staðið. Eins og kom fram í máli hv. þm. hefur verið úthlutað úr þróunarsjóði framhaldsskóla til fullorðinsfræðslu í ýmsum skólum. Og varðandi Fjölbrautaskólann á Suðurnesjum, þá hefur verið ákveðið að stofna þar símenntunarfélag og ráðuneytið kemur að því og ég tel að það félag og sá félagsskapur sem þar er verið að stofna með þátttöku ráðuneytisins og fjárframlögum frá ráðuneytinu geti verið fyrirmynd fyrir aðra skóla um það hvernig eigi að standa að því að skipuleggja og standa að þátttöku framhaldsskólanna í fullorðinsfræðslu.

Ég vil einnig geta þess að á vegum ráðuneytisins er starfandi nefnd um símenntun og endurmenntun og ég bind miklar vonir við þær tillögur sem koma frá þeirri nefnd og þar verði mörkuð ný stefna í símenntun og endurmenntun í landinu sem er mjög brýnt að litið sé til með nýjum áherslum og frá nýjum sjónarhóli.

Varðandi skólann í Austur-Skaftafellssýslu þá eru viðræður í gangi milli ráðuneytisins, hafa verið viðræður og munu núna fara af stað að nýju, um framtíðaraðsetur þess skóla og hvernig honum verði best búin framtíðaraðstaða. En það er enginn samningur um það og þess vegna er ekki unnt að taka málið inn í fjárlagafrv. fyrr en frá því hefur verið gengið með samkomulagi um það hvernig að því skuli staðið.

Námsgagnastofnun fær auknar fjárveitingar á næsta ári, um 5 millj. kr., til þess að sinna námsefnisgerð í raungreinum. Að sjálfsögðu má segja að það sé ekki nóg og menn geti alltaf þurft á meiru að halda en ég tel að þar sér viðleitni af okkar hálfu til þess að auka getu Námsgagnastofnunar til að sinna sínum störfum.