Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:07:41 (201)

1997-10-08 19:07:41# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:07]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að áður en fjáraukalagafrv. var lagt fram, þá var efni þess að sjálfsögðu kynnt formanni og varaformanni nefndarinnar. Ég vil einnig benda á vegna sérstaks áhuga formannsins, hv. þingmanns, á Stjórnarráðshúsinu, að Alþingi hefur nú þegar tekið ákvörðun um að veita fjármuni til þess verks. Það hefur Alþingi nú þegar gert. Þegar síðan í ljós kom að verkið var miklu dýrara en áður hafði verið gert ráð fyrir, þá varð ekki til baka snúið. Það er ekki hægt að halda húsinu eins og það er. Og það er nú þannig með gömul hús, 200 ára gömul hús og þar yfir, og það veit hv. þm., að ýmislegt getur komið í ljós sem menn sáu ekki fyrir þegar veggir eru rifnir og gólf tekin upp. Þetta veit auðvitað hv. þm. og þarf ekki að vera að skýra þetta út fyrir honum.

Og þegar hv. þm. segir síðan að það hafi verið tekin ákvörðun um útgjöld upp á þetta marga milljarða, ég segi fyrir mig, ég er undrandi á hv. þingmanni að orða þetta svona vegna þess að 4 milljarðar eru vextir. Þau útgjöld hlutu alltaf að koma til greiðslu. Það er engin ákvörðun mín eða einhvers annars í stjórnarliðinu um að við ætlum ekki að greiða vexti. Auðvitað eru þetta útgjöld sem fyrir löngu er búið að ákveða, um leið og lánin eru tekin. Ákvörðunin er einungis sú að borga vextina fyrr en ella. Ef við hefðum verið á rekstrargrunni hefði ekkert komið fram um þetta í fjárlögunum, ekki nema það að við hefðum sparað á síðari stigum. En á greiðslugrunninum, sem er nokkurs konar sjóðsstreymi, er þetta flýting á greiðslum. Ákvörðunin er ekki í neinu öðru fólgin en því að flýta því að greiða skuldir, útgjöld sem menn höfðu þegar stofnað til. Og það er dálítill munur á því og einhverjum ákvörðunum sem hv. þm. er að gefa í skyn að hafi verið teknar. Ég vonast til þess að hv. þm. staðfesti að það sé skynsamlegt að innkalla þessi spariskírteini og ég vil biðja hann þegar hann kemur í stólinn að staðfesta það. Þá er hann maður að meiri.