Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:34:45 (208)

1997-10-08 19:34:45# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra svörin. Mér fannst þau um margt skynsamleg. Ráðherrann reyndi ekkert að verja það sem ég hélt hér fram, og sem er auðvitað satt og rétt, að það er verið að taka peninga úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og setja inn í ríkissjóð, um 500 millj. á tveimur árum af tekjum erfðafjárskatts. Ráðherrann reyndi heldur ekkert að verja það, sem mér fannst líka skynsamlegt af honum, að það er verið að fækka félagslegum íbúðum og minnka framlögin í Byggingarsjóð verkamanna og hætta er á því að sjóðurinn fari á hausinn eins og Ríkisendurskoðun hefur sagt. Mér fannst það skynsamlegt af ráðherranum.

Um húsnæðismálin eða húsbréfin eða hvernig hann reyndi að verja það að skuldir heimilanna hafa aukist um 100 millj. á dag í tíð þessarar ríkisstjórnar, þá fannst mér nú ráðherrann gera sig hálfhlægilegan. Hann grípur alltaf til þess vopns sem hann telur sig hafa, að afföll í húsbréfakerfinu voru í örfáa mánuði á árunum 1990--1991 um 25%. Á því var skýring sem ráðherrann veit, þ.e. að Framsfl. vildi ekki leggja af 86-kerfið og þess vegna voru tvö kerfi í gangi sem ollu þenslu á markaðnum. En ráðherrann --- og ég ætla að minna á það af þessu gefna tilefni en hefði annars ekki talið ástæðu til að minna á það --- faldi skýrslu fyrir Alþingi á síðasta vetri þar sem fram kom hjá Húsnæðisstofnun að affföllin í 86-kerfinu sem Framsfl. vildi viðhalda voru um 40% og það er auðvitað af þessu gefna tilefni sem ég mun á næstu dögum leggja fram frv. um ráðherraábyrgð en samkvæmt því verða ráðherrar sem fara með villandi upplýsingar fyrir Alþingi eða leyna það upplýsingum brotlegir við lög.

Varðandi málefni barna viðurkenndi ráðherrann, sem er satt og rétt, að það er engin aukning í málefnum barna þrátt fyrir góðærið. En ég spyr: Þarf dómsmrn. að tefja það þó að það sé að skoða sjálfræðisaldurinn? Það liggur fyrir að það þarf þrjú til fjögur meðferðarheimili vegna hækkunar á sjálfræðisaldrinum. Það snýr að hæstv. ráðherra þannig að hann gæti þess vegna hrundið því af stað.