Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:45:37 (245)

1997-10-08 21:45:37# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:45]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vék að einu atriði í ræðu sinni sem ég vil segja örfá orð um vegna þess að það er dæmigert tilfelli um ófyrirséð útgjöld og það er sendiráðsbústaðurinn í Washington. Við athugun fyrr á árinu kom í ljós að húsið er ónýtt og tveir kostir voru fyrir hendi, annaðhvort að selja það og tapa á því stórfé eða gera við það. Það er ónýtt vegna þess að burðarveggir höfðu verið rifnir úr því áður en Íslendingar keyptu það á sínum tíma þannig að upp kom mjög erfitt fjárhagslegt dæmi sem varð að bregðast við og þess vegna er þetta til komið. Þarna er um gífurlega fjármuni að ræða en þetta er einmitt dæmi um ófyrirséð útgjöld sem upp koma og komu upp eftir að fjárlög voru samþykkt fyrir þetta ár. (Gripið fram í: Það þolir bið.) Ég er ekki viss um að það hafi þolað bið. Ég býst við að það hafi þurft að bregðast við þessu strax.

Samningar um grunnskólann voru á sínum tíma gerðir í góðu samkomulagi við sveitarfélögin. Með grunnskólanum voru lagðir allmiklir peningar frá ríkinu og ég vona satt að segja að sveitarfélögin leiði þetta mál til lykta með samningum við sitt fólk. Ég ítreka að samningarnir um yfirfærsluna voru gerðir eftir mikla vinnu í góðu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga.