Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 10:51:23 (264)

1997-10-09 10:51:23# 122. lþ. 6.91 fundur 35#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:51]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að í tengslum við þessa umræðu séu aðrir þættir í sambandi við Lánasjóð íslenskra námsmanna ræddir eða vakin athygli á þeim. Í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar kemur fram að framlög til lánasjóðsins eru einungis 60% af því sem þau voru fyrir tíu árum, það er öll framförin. Það hefur líka komið fram í skýrslu sem við báðum um á Alþingi að hérlendis eru mun lægri framlög til háskólastigsins en annars staðar. Það hefur líka komið fram í umræðu hér að við erum með ein lægstu framlög til menntamála í Evrópu. Þetta lýsir stöðnun og metnaðarleysi, sérstaklega Sjálfstfl. Þar hefur ekki örlað á, hvorki í þessari umræðu né nokkurn tímann í sambandi við menntamál, nokkurri stefnubreytingu og róttækri hugsun til framfara. Það hefur komið í ljós í sambandi við lánasjóðinn að við búum við mjög sérstakt kerfi. Það byggir á lánum með niðurgreiddum vöxtum sem er nær einsdæmi í Evrópu. Flestar þjóðir hafa farið leið námslauna blandaða við lánakerfið. Hvar örlar á hugmyndum í átt að þessu sem væri e.t.v. að mörgu leyti skynsamlegra kerfi en það sem við búum við nú og mundi e.t.v. tryggja jafnrétti betur til náms en núverandi kerfi? Engin umræða um þetta er af hálfu hæstv. menntmrh. Stöðnunin, óbreytt fyrirkomulag og vörn fyrir óbreytt kerfi er það sem einkennir þá tæknilegu umræðu sem við erum hér að ljúka.