Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:19:38 (335)

1997-10-09 15:19:38# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði svo sem ekki mikið um það hvort þetta kerfi væri í raun komið og tillagan því óþörf. Ég lít svo á að tillagan sé óþörf og veiðileyfagjald hafi í raun verið lagt á í dag og þess vegna sé það hálfgerð sýndarmennska að vera með þessa tillögu. Hingað til hafa hugmyndir þeirra veiðileyfisgjaldsmanna beinst að uppboðsleiðinni og maður veltir því fyrir sér þegar uppboðsleiðin er útfærð að allur afli landsmanna fer á markað og einhver hópur manna kemur og vill bjóða í. Hvaða hópur verður það sem býður í aflaheimildirnar þegar þær koma á uppboðsmarkaðinn? Það eru náttúrlega þeir sem hafa hagsmuni. Það eru þeir sem eiga peninga og þeir sem geta boðið best fá væntanlega allar aflaheimildirnar í sínar hendur. Og hverjir verða það, ef maður hugsar sér það. Hverjir munu það verða? Hverjir eru að bítast t.d. um útgerðarfyrirtæki landsmanna og hafa verið að gera það á undanförnum árum? Það eru náttúrlega sölusamtökin, sölusamtök SH og ÍS og hvað þau heita. Þau eru öll að reyna að tryggja sig inni í stærstu útgerðarfélögum landsins til þess að hafa möguleika á því að selja afurðir á sínum stöðum. Bankar gætu hugsanlega keypt, lífeyrissjóðir eða einhverjir allt aðrir og hvar væri þetta þá? Þetta væri þá væntanlega í þeirra eigu eða þeirra umsjá og þeir mundu síðan úthluta því til einhverra skipa sem væru þeim þóknanleg til að veiða þann afla sem þeir hefðu fengið úthlutað. Ég er ekki alveg búinn að sjá að þetta gangi upp þegar við ætlum að fara að skipuleggja síðan byggðastefnu, við ætlum að skipuleggja vinnu þar sem búið er að byggja upp stór og dýr hús til þess að vinna svona afurðir. Ég held að menn sjái fyrir sér alveg gríðarlegan glundroða ef við þyrftum að fara út í svona uppboðsleið.

Og hugmyndin um að dreifa þessu á alla landsmenn. Auðvitað er voðalega gott að hafa það á tilfinningunni að maður eigi von á einhverjum peningum í pósti þar sem kvótanum er bara dreift til landsmanna. En það hlýtur að skapa algjöran glundroða.