Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:27:34 (363)

1997-10-09 16:27:34# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:27]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það var eins og ég vissi að hv. þm. Ágúst Einarsson viðurkennir það sem rétt er. Ég hef þá reynslu af þeim ágæta þingmanni að hugmyndir alþýðuflokksmanna voru á síðasta þingi að leggja 17 milljarða auðlindaskatt á sjávarútveginn. (ÁE: Það er rangt.)

Hins vegar vil ég leiðrétta eitt að eitt nýtt hefur komið fram í umræðunni. Það eru ummæli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þar sem hann fjallar um fiskveiðistjórnunarkerfið almennt. Það kemur mér á óvart og er alveg furðulegur málflutningur hjá þeim manni sem ætti annars að vita miklu betur. Að halda því fram að það kerfi sé ónýtt sem hefur skilað okkur því að atvinnugreinin skuli hafa lifað það af að falla úr aflamarki og aflaheimildum upp á 370 þús. tonn niður í 120 þús. tonn er afrek og sýnir okkur að það kerfi sem við lifum við er gott kerfi. (Gripið fram í.) Annars hefði atvinnugreinin ekki komist af hvað sem hv. 1. þm. Vestf. segir vegna þess að það er annað sem hann segir hér en fyrir vestan.