Skýrsla OECD um framlög til menntamála og yfirvofandi kennaraverkfall

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:18:35 (380)

1997-10-13 15:18:35# 122. lþ. 7.1 fundur 44#B skýrsla OECD um framlög til menntamála og yfirvofandi kennaraverkfall# (óundirbúin fsp.), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:18]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Þann 17. ágúst vitnaði hæstv. menntmrh. í Morgunblaðsgrein í nýlega skýrslu OECD um íslensk efnahagsmál vegna skólagjalda á háskólastigi en nefnir ekki þær hrikalegu niðurstöður sem þar er að finna varðandi framlög Íslendinga til menntamála almennt og ábendingar um lág kennaralaun. Í nefndri skýrslu kemur fram að ef miðað er við lönd með sambærilega landsframleiðslu á mann þá vanti 27% upp á að framlög til grunnskólastigsins séu sambærileg og annarra OECD-landa, 40% vanti upp á framlög til framhaldsskólans og 42% til háskólastigsins. Þetta hafði sparað íslenska ríkinu tíu billjónir 1993 eða 2,4% af landsframleiðslu. Þá er sérstaklega talað um hve laun kennara á Íslandi séu lág og það er skýrt eða réttlætt með því að kennarar geti sinnt öðru starfi með, a.m.k. á sumrin.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. menntmrh. tveggja spurninga: Hefur ráðherrann kynnt sér nefndar niðurstöður OECD-skýrslunnar og hyggst hann bregðast við með öðrum hætti en lesa má í fjárlögunum um framlög til menntamála? Í öðru lagi: Hyggst hæstv. menntmrh. taka eitthvert frumkvæði vegna yfirvofandi verkfalls kennara? Kemur til greina að mati hæstv. ráðherra að ríkið leggi meira fé til launa grunnskólakennara en gert er ráð fyrir í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaga?