Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:49:47 (395)

1997-10-13 15:49:47# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu í sjálfu sér því hún gefur tilefni til að ræða um fjarkennslu á hinu háa Alþingi sem er verðugt viðfangsefni miðað við mikilvægi hennar og hversu mörgum hún getur þjónað ef rétt er á málum haldið.

Eins og fram kom í máli hv. þm. hefur menntmrn. mótað skýra stefnu í þessu máli og þeirri stefnu er markvisst framfylgt. Menntmn. beitti sér einnig fyrir því þegar Ísmennt eða Íslenska menntanetið var komið á krossgötur, ef það má orða það svo, að það fyrirtæki var keypt og starfar nú undir handarjaðri Kennaraháskóla Íslands og veitir þjónustu í skólakerfinu. Menntmrn. hefur einnig beitt sér fyrir því, eins og kom fram í máli hv. þm., að styrkir eru veittir til framhaldsskóla til að tæknivæðast og búa sig undir að geta nýtt tæknina til þess að veita fjarkennslu. Menntmrn. hefur sérstaklega staðið að stuðningi við Verkmenntaskólann á Akureyri sem miðstöðvar fjarkennslu á framhaldsskólastigi. Menntmrn. studdi einnig það tilraunaverkefni sem unnið var frá skólanum á Akureyri við nemandann á Bakkafirði í 10. bekk. Það er í fyrsta sinn sem gerð er tilraun til að veita fjarnám á grunnskólastigi. Menntmrn. studdi það og stóð að því að það var unnt undir forsögn skólastjórans á Vopnafirði. Við höfum því komið að þessu máli með margvíslegum móti og því er alls ekki lokið af hálfu menntmrn. að vinna að því að útbreiða fjarkennsluna og stuðla að því að hún nýtist sem best. Þannig er starfandi nefnd á vegum ráðuneytisins um símenntun og fullorðinsfræðslu sem mun væntanlega skila áliti á þessum vetri. Þar verður tekið á þeim málum sem varða símenntun og fullorðinsfræðslu og nýtingu tölvutækninnar í þessum tilgangi.

Einnig höfum við stuðlað að því að það verði unnið námsefni fyrir fjarkennslunámið. Eitt af því brýnasta sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir núna er að taka ákvörðun um námsefni til nýtingar á hinu nýja tæknisviði. Þannig er að þegar litið er á tækjakostinn og þann búnað sem skólarnir búa við og hvernig háttað er samskiptum hér á landi á veraldarvefnum og internetinu, þá komast fáar þjóðir með tærnar þar sem við höfum hælana. Einu þjóðirnar sem standa okkur framar að þessu leyti eru ef til vill Finnar og Bandaríkjamenn, en þó ekki þegar kemur að skólamálunum. Líklega er engin þjóð í heimi sem stendur okkur framar þegar kemur að því að líta á tengingu íslenskra skóla og samtengingu þeirra og aðgang að internetinu og tölvubúnaði. Það er því mjög brýnt fyrir okkur að velta fyrir okkur öllum leiðum til að þessi búnaður nýtist sem best til fjarnáms og til náms í skólunum sjálfum. Þar held ég að við þurfum að marka okkur skýrari stefnu og leggja betur á ráðin um það hvernig við getum framleitt námsefni til notkunar í þessum mikla tölvubúnaði sem við höfum. Einnig þurfum við að sjá til þess að tölvubúnaðurinn úreldist ekki og að ávallt sé reynt að nýta sér tæknina sem best.

Nýlega var opnað nýtt skólahús Fjölbrautarskólans í Garðabæ. Þar er fullkomnasta tölvuver í framhaldsskóla hér á landi. Þar með tel ég eitt fullkomnasta tölvuver sem unnt er að finna í framhaldsskóla í öllum heiminum.

Það er því með engu móti unnt að segja að ekki hafi verið staðið vel að þessum málum af hálfu mennmrn. Ég fagna því að þingmenn taka eftir þessu og vilja slást í hópinn með ráðuneytinu með því sem felst í þessum tillöguflutningi. Hins vegar tel ég að það sé ekki endilega þörf á því að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um málið. Aðalatriðið er að vinna áfram samkvæmt þeirri stefnu sem ráðuneytið hefur mótað og í þeim anda sem ríkir innan íslenska skólakerfisins.

Eins og kom fram í máli hv. þm. þá höfum við Íslendingar, sem betur fer segi ég, staðið að uppbyggingu þessara mála að verulegu leyti fyrir frumkvæði í skólakerfinu sjálfu án þess að opinberar nefndir eða opinber yfirvöld hafi komið þar með forsögn og sagt: ,,Svona á það að vera.`` Þvert á móti hefur þróunin frekar verið á þann veg að opinberir aðilar hafa komið og styrkt það grasrótarstarf sem hafist hefur í skólunum sjálfum og þar með hefur okkur miðað hraðar áfram heldur en ýmsum öðrum þjóðum sem setja á laggirnar stórar nefndir til að fjalla um vandann, skilgreina vandann, og koma síðan með tillögur. Hér hefur frumkvæðið, t.d. í fjarkennslunni, komið að meginhluta til frá tveimur mönnum í Verkmenntaskólanum á Akureyri sem ráðuneytið hefur síðan tekið og stutt til frekari dáða, ef ég má orða það svo, og veitt þann stuðning sem talinn er hæfilegur hverju sinni til þess að þeir geti þróað sína starfsemi.

Eins og hv. þm. gat um, hefur hún blómgast og skilað verulegum árangri og nú eru menn að vinna að því hér, einstaklingar líka án þess að ríkið hafi um það forgöngu, að þróa samskiptakerfi í fjarnámi sem á að gera mönnum betur kleift en nú er að nýta sér þessa tækni, t.d. á hafi úti og að vera í beinu sambandi við Verkmenntaskólann eða hvern þann sem þetta nám býður. Það hefur einnig tekist samkomulag á milli Verkmenntaskólans og Háskólans á Akureyri um nýtingu þessarar tækni í þágu fjarnáms. Ég held að þar sé einnig rétt að verki staðið þar sem tveir skólar á ólíkum skólastigum taka höndum saman og skapa eitthvað nýtt.

Þetta hefur allt gerst án þess að opinberar nefndir sitji að störfum og átti sig á því hvað sé best og hvernig best er að halda á hlutunum. Það sem við þurfum nú að gera miklu frekar er úttekt á stöðunni. Ráðuneytið hefur haft í undirbúningi að efna til málþings eða ráðstefnu þar sem allir þessir aðilar komi saman, geri úttekt á stöðunni og leggi sjálfir á ráðin um hvert eigi að stefna næst. Sérstaklega held ég að það sé brýnt að velta því fyrir sér hvernig við stöndum að því að framleiða kennsluefni. Eigum við að íslenska allt efni? Eigum við að nota erlent efni? Hvaða leiðir eigum við að fara á þeirri braut? Það er mjög mikilvægt umhugsunarefni að velta fyrir okkur hvort við getum nokkurn tímann á þessu sviði keppt við hið fullkomnasta erlenda efni sem í boði er og hvernig við eigum að taka á þeim málum til nýtingar á þessari tækni.

Herra forseti. Ég ítreka að ég tel tímabært að þetta mál sé rætt á hinu háa Alþingi þó ég sé ekki endilega þeirrar skoðunar að það brýnasta sem við okkur blasi í þessu sé að skipa nefnd til að fjalla um málið.