Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:04:28 (400)

1997-10-13 16:04:28# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., DH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:04]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. um fjarkennslu til að jafna stöðu til náms og einnig að skipuð verði nefnd sem geri tillögur um hvernig nýta megi fjarkennslu á \mbox{grunnskóla-,} framhaldsskóla- og háskólastigi. Þegar tillagan kemur til hv. menntmn. vil ég beina því til nefndarinnar hvort ekki sé ástæða til að í nefndinni verði fulltrúi þeirra sem eru að vinna að fullorðinsfræðslu en eru ekki inni í skólakerfinu. Ég tek undir með hæstv. menntmrh. að það þarf að gera úttekt á stöðunni eins og hún er í dag.

Fjarnám er ein mesta jöfnun til náms fyrir þá sem ekki eiga heimangengt svo og þeirra sem eru sjúkir og fatlaðir og sem eiga með nýrri tækni að geta stundað nám sitt á spítölum, stofnunum eða heima hjá sér. Þeir eru margir sem búa á landsbyggðinni sem ekki hafa getað lokið framhaldsnámi en þrá ekkert heitar en að geta farið í nám. Þá er fjarnám oft eina úrræðið vegna fjarlægðar frá menntastofnunum. Símenntun er nauðsynleg til að geta brugðist við nýjum og breyttum aðstæðum í síbreytilegu samfélagi. Að nýta sér fjarnám er mikil hagræðing og gott nám skilar einstaklingnum hæfari út í atvinnulífið. Ég tek undir með flutningsmönnum tillögunnar að breytingar í atvinnulífinu kalla á endurmenntun og símenntun og möguleikarnir á að nýta sér fjarkennslu við endur- og símenntun eru nær ótæmandi.

En til að geta nýtt sér þá möguleika sem skyldi verða þeir að hafa aðgang að margmiðlunartölvum. Þá þarf verð á netsambandi að vera hóflegt og vera það sama á öllu landinu. Stuðla þarf að öflugri og markvissri netkennslu í skólakerfinu og framleiða gott námsefni.

Þróun á sviði margmiðlunar er mikil og alþjóðlegar kannanir hafa sýnt að Íslendingar eru í efsta eða næstefsta sæti yfir þær þjóðir sem helst hafa hagnýtt sér alnetið. Samkvæmt nýrri könnun Hagvangs hafa um 35% Íslendinga aðgang að netinu á einn eða annan hátt, ýmist heima, í vinnunni eða í skólanum. Alnetið þekkir engin landamæri og með tilkomu fjarnáms er hægt að mennta og fræða á áhrifaríkari, afkastameiri og margfalt ódýrari hátt en áður. Aðgengi upplýsinga nú er óháð tíma, stað eða efnum og með greiðum aðgangi að upplýsingum er unnt að nýta dýrmæta reynslu annarra sem getur sparað gífurlega vinnu og fjármuni.

Í umræðum og starfi að byggðarmálum undanfarin ár hefur megináherslan gjarnan verið lögð á efnislega þáttinn, á atvinnumál og samgöngumál og annað sem hægt er að mæla. Ekki geri ég lítið úr því en oft vill það gleymast að ekki er nóg að bjóða upp á næga atvinnu ef ekki er til staðar góður skóli og blómlegt menningar- og félagsstarf.

Björn Bjarnason, hæstv. menntmrh., hefur lagt mikla áherslu á að upplýsingatækni sé nýtt öllum til heilla og að þessum málum er verið að vinna í menntmrn. Má þar t.d. benda á tillögur menntmrn. í ritinu Í krafti upplýsinga, um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996--1999. Þar kemur fram metnaðarfull stefnumótun menntmrh. og í stefnu menntmrn. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Nýta verður upplýsingatækni til að bæta menntun þjóðarinnar og þar með samkeppnishæfi hennar. Í stefnumótun á öllum sviðum menntakerfisins, frá leikskóla til háskóla, verður að gæta þess að kostir upplýsingatækni séu nýttir. Efling þekkingar og reynslu við upplýsingaöflun, sjálfsnám og framtakssemi eru lykilatriði til að gera nemendur færa um að nýta sér til fullnustu tækifæri upplýsingatækni. Kenna verður notkun upplýsingatækni á öllum skólastigum.``

Í fjarkennslu og símenntun er margt að gerast. Fjöldi nemenda nýtir sér fjarkennslu, má þar nefna að sjómenn á hafi úti og einstaklingar um allt land eru að nema nú við Verkmenntaskólann á Akureyri. Leiðbeinendur eru í fjarnámi til að afla sér kennsluréttinda við Kennaraháskóla Íslands og íslenskir nemendur eru við nám við erlenda háskóla.

Í könnunum hefur komið fram að Ísland er í hópi tölvuvæddustu landa og fáar þjóðir ferðast meira um víðáttur alnetsins en Íslendingar. Í nýlegri könnun Gallup fyrir tímaritið Tölvuheima kemur fram að mikill munur er á notkun alnetsins eftir því hvar fólk býr á landinu. 30,7% íbúa Reykjavíkur og nágrennis nota netið en aðeins 15,9% þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Munurinn verður enn meiri ef aðeins er miðað við þá sem tengja sig inn á netið vikulega eða oftar. Það gera 20,4% fólks sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 8,4% íbúa annars staðar á landinu.

Í sömu könnun kemur fram að notkun eykst eftir því sem fólk hefur meiri tekjur og eftir því sem það er betur menntað. Spyrja má hvort notkunin sé meiri á höfðurborgarsvæðinu vegna þess að þar sé meira af vel menntuðu fólki með háar tekjur en úti á landi. Þá mætti spyrja á móti hvort slíku fólki myndi ekki fjölga á landsbyggðinni ef íbúum hennar tækist að nýta sér kosti alnetsins til þess að afla sér menntunar og viðskipta.

Það verður að hafa í huga að til þess að geta nýtt sér kosti þessarar tækni þarf tiltekna grunnþekkingu. Til þess að geta aflað sér þeirrar þekkingar þarf aðgang að tölvu og módemi og að vera með internettengingu. Ekki eiga allir slík tæki en hins vegar er þau að finna í flestum grunnskólum og framhaldsskólum í landinu. Nú þegar sveitarfélögin hafa tekið yfir rekstur grunnskólanna ættu þau að geta nýtt þessa aðstöðu til þess að gefa íbúum færi á að æfa sig í notkun tölva. Einnig gætu sveitarstjórnir verið í góðri aðstöðu til þess að semja við framhaldsskóla á svæðinu til þess að geta boðið íbúum þessa kennslu. Kennara ætti í flestum tilfellum að vera hægt að finna í næsta nágrenni svo ekki ætti að þurfa að leggja í mikinn ferðakostnað vegna þessa. Þá mætti einnig hugsa sér að koma upp tölvuverum í tengslum við skóla og almenningsbókasöfn í sveitarfélögunum og væri þar kjörið samstarfsverkefni fyrir sveitarfélögin í landinu.

Fjölbreytt og traust atvinnulíf og skilningur á gildi menntunar er forsenda þess að það unga fólk sem aflar sér menntunar snúi aftur til heimabyggðar. Þá er ekki síður mikilvægt að íbúum gefist kostur á fullorðinsfræðslu, þeir geti bætt við sig menntun og fróðleik þótt þeir séu komnir af hefðbundnum skólaaldri.

Menntun og þekking er undirstaða framfara og er í raun lykill að framtíðarbúsetu á landsbyggðinni, það hvernig fólk tekst á við breyttar aðstæður og færir sér breytingarnar í nyt og kemur auga á nýja möguleika.