Óundirbúin fyrirspurn um flugmálaáætlun

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 13:38:49 (431)

1997-10-14 13:38:49# 122. lþ. 8.91 fundur 51#B óundirbúin fyrirspurn um flugmálaáætlun# (aths. um störf þingsins), GHH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[13:38]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort það sé eðlilegt að ræða hér þingskjöl áður en þau koma fram. Það var ekki gert í gær. Þingmaðurinn sem bar fram óundirbúna fyrirspurn hafði að sjálfsögðu fullt leyfi til þess að spyrja um hvaðeina sem hann langaði til, þar á meðal um Reykjavíkurflugvöll. En hann var ekki að ræða þingskjalið eða flugmálaáætlun sem er til meðferðar í stjórnarflokkunum eins og hún mun birtast hér þegar þar að kemur. Á þessu verður að sjálfsögðu að gera mun.

Það er ágætt að þingmenn Þjóðvaka fyrrv., þingmenn jafnaðarmanna núverandi, minni okkur á að halda þingsköpin. Við vorum minnt á það í síðustu viku að það er hægur vandi að fara svolítið í kringum þau undir liðnum athugasemdir um störf þingsins. Tvívegis í síðustu viku notuðu þingmenn jafnaðarmanna, fyrrv. Þjóðvaka, tækifærið til þess að taka upp efnisumræðu um mikilvæg og viðkvæm mál undir liðnum athugasemdir um störf þingsins.

Það er að vísu ekki svo núna vegna þess að þetta er eðlileg fyrirspurn undir þessum lið, en málið liggur svona. Þingmaðurinn Guðmundur Hallvarðsson og aðrir þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu geta spurt hér um hvaðeina sem varðar starfsemi viðkomandi ráðherra undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir, en það hefði verið óeðlilegt ef hann hefði farið að ræða þingskjalið um flugmálaáætlun sem ekki er komið fram, en það gerði hann að sjálfsögðu ekki.