Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:20:28 (458)

1997-10-14 16:20:28# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:20]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þm. kom inn á að það kunni að vera að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sé að taka verkefni sem annars hefði farið annað og þar af leiðandi sé um afleiðingar af pólitískum ákvörunum okkar að ræða. Ég held að þetta sé atriði sem við þurfum fara mjög vandlega yfir. Ég hef verið talsmaður þess að ekki þurfi allir hlutir að gerast á höfuðborgarsvæðinu þó að við séum alþingismenn við Austurvöll. Það er fullt af hæfu fólki út um allt land og aðstaða til þess að sinna margs konar þjónustu og þar á meðal sjúkrahúsaþjónustu.

Við þurfum hins vegar að vita hvert við ætlum að stefna og hvernig við ætlum að gera þessa hluti. Það getur vel verið skynsamlegt að nýta enn frekar aðstöðuna á Sjúkrahúsinu á Akureyri þannig að hægt sé að færa álagið af stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík m.a. þangað. Ég hef sannarlega verið talsmaður þess að svo yrði og ég tel að í rauninni sé eftir nokkur umræða, m.a. í þinginu um það hvernig eigi að standa að því að færa verkefnin til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Þar er verið að byggja við sjúkrahúsið og það þarf að átta sig á því hvernig því verður lokið og hvernig rekstrarfjármunir verði tryggðir. Hins vegar stöndum við frammi fyrir því að við höfum ekki nema ákveðnar tekjur ríkissjóðs til þess að skipta milli allra þessara fjölmörgu þátta í ríkiskerfinu og þess vegna þurfum við að gæta þess að leggja ekki af stað, hæstv. forseti, með útgjöld án þess að átta okkur á því að þau geta verið til langs tíma, m.a. útgjöld vegna sendiráða sem er hins vegar allt annað mál.