Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:42:28 (547)

1997-10-16 11:42:28# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt hlutverk að vera heilbrrh. en hæstv. ráðherra bað sjálf um að fá þetta hlutverk. Ég hef engu að síður samúð með hæstv. ráðherra því að hæstv. ráðherra hrekst alls staðar undan. Hæstv. ráðherra stendur hvergi í neitt ístað. Hæstv. ráðherra á meira að segja erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.

Ég hef miklar áhyggjur, virðulegi forseti, af þeirri aðför sem nú er gerð að sjúkratryggingum og sjúkratryggðum í landinu. Stór hluti sjúklinga er nú í raun ótryggður. Heilbrrn. lætur flatreka frammi fyrir þeirri staðreynd. Hæstv. ráðherra er orðinn eins og ljónatemjarinn sem lenti í maganum á ljóninu. Hæstv. ráðherra heldur að af því að hann er samferða ljóninu ráði hann ferðinni en það er mesti misskilningur. Ljónatemjari sem lendir í maganum á ljóninu ræður ekki ferðinni þó hann sé því samferða.