Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:50:33 (577)

1997-10-16 14:50:33# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), StB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:50]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta Alþingis og Ríkisendurskoðun fyrir þá skýrslu sem hér er til umfjöllunar. Ég sakna þess hins vegar satt að segja að ekki skuli vera fleiri hér á vettvangi en raun ber vitni. Engu að síður hafa allmargir tekið til máls. En það er nú einhvern veginn þannig að umræður um fjármál ríkisins, þ.e. umræður um ríkisreikning og það sem liðið er eru ekki mjög miklar að jafnaði nema eitthvað sérstakt sé sem sást best á því að einungis voru tveir í salnum í morgun fyrir utan forseta þegar rætt var um ríkisreikning fyrir árið 1996 við 1. umr. En það ber því e.t.v. vitni að þetta sé nú allt í miklum sóma og mjög góðu lagi eins og í rauninni kemur fram í starfsskýrslu ríkisendurskoðanda sem betur fer.

Hér hefur verið farið nokkuð yfir það sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar er um mjög gagnlegar upplýsingar að ræða um marga hluti og nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn að gæta vel að því sem þar kemur fram. Hins vegar er nauðsynlegt fyrir okkur að fjalla dálítið um formið á þessu, þ.e. hvaða fyrirkomulag eigi að hafa á endurskoðuninni almennt. Að vísu markar löggjöfin það nokkuð skýrt en engu að síður þurfum við að ræða það í hvert sinn sem skýrslan kemur fram. M.a. hafa spunnist hér umræður um hvaða verklag skuli hafa við þetta og þá sérstaklega hvernig eigi að meðhöndla þær skýrslur sem Ríkisendurskoðun gefur út, hverjir skuli fjalla um þær og hvernig því sé háttað. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að við þurfum að gera þá breytingu sem hér hefur komið fram hjá öðrum hv. þingmönnum, að sérstök nefnd fjalli um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ég tel eins að eðlilegt sé að fjárln. fjalli um ríkisreikninginn og þá skýrslu sem kemur fram um ríkisreikninginn hverju sinni frá Ríkisendurskoðun og sömuleiðis fjalli fjárln. um skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga. Á hinn bóginn tel ég að starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar og stjórnsýsluúttektum Ríkisendurskoðunar eigi að vísa til sérstakrar nefndar sem fjalli um þau málefni. Ég tel að það sé eðlilegri gangur vegna þess að e.t.v. er Ríkisendurskoðun m.a. að fjalla um vinnu og tillögur fjárln. um tiltekin atriði við fjárlagagerðina, þegar fjallað er um og farið ofan í tilteknar stofnanir og meðferð fjármuna. Ég tel því eðlilegt að þarna rekist ekkert á, að eðlilegast sé að sérstök nefnd fjalli um þær skýrslur sem varða stjórnsýsluúttektir. En þarna þurfum við að fikra okkur áfram og reyna að koma þessu í styrkara horf. Ég tel að vinnubrögð Ríkisendurskoðunar marki þarna mjög vel veginn því að eins og breska skýrslan sýnir og þar segir þá er mjög vel haldið á málum hjá hinni íslensku Ríkisendurskoðun og því ber að fagna. Það er mjög mikilsvert fyrir Alþingi að sá dómur sé kveðinn upp.

Hins vegar þurfum við á sama hátt að líta mjög rækilega yfir þær ábendingar sem breska ríkisendurskoðunin setur fram. Ekki er um að ræða veigamiklar athugasemdir heldur fyrst og fremst ábendingar þeirra sem best þekkja til þess hvernig eigi að standa að þessum málum, um það hvernig megi bæta hlutina.

Ég vil aðeins nefna það sem reyndar kemur fram í þessum skýrslum, að ég tel að það sé til bóta sem Ríkisendurskoðun hefur gert, að fela sjálfstætt starfandi endurskoðunarfyrirtækjum að vinna að tilteknum verkum í umboði Ríkisendurskoðunar. Ég tel að það eigi í auknum mæli, eftir því sem við verður komið, að gerast með útboðum á þeim verkefnum þannig að sem allra besti bragur sé á þessu öllu saman og reynt sé að dreifa þessum viðfagnsefnum. Ég tek undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að auðvitað þarf hins vegar að standa þannig að verðlagningu og öðru að Ríkisendurskoðun verðleggi sína vinnu eins og gerist hjá sjálfstætt starfandi aðilum þó að öll aðstaða sé lögð til af hálfu ríkisins.

Í sambandi við þetta vil ég nefna eitt atriði sem ég tel að sé afar mikilvægt að skoða og verður e.t.v. til meðferðar í næstu skýrslu Ríkisendurskoðunar. Eins og hv. þm. muna e.t.v. eftir, var lögum um fyrirtækið Landsvirkjun breytt á síðasta þingi. Í þeirri löggjöf var m.a. gert ráð fyrir því að Ríkisendurskoðun gæti með tilteknum hætti komið að fyrirtækjum sem eru að hálfu í eigu ríkisins og þar af leiðandi fellur hið ágæta fyrirtæki Landsvirkjun undir þá skilgreiningu. Nú veit ég, og það kom reyndar fram þegar verið var að fjalla um frv. um Ríkisendurskoðun í þeirri sérnefnd sem hafði það með höndum, að það komu fram athugasemdir frá meðeigendum ríkisins hvað þetta varðaði. Þær athugasemdir eru uppi á borði enn, bæði hjá sveitarfélögunum sem eru meðeigendur ríkisins að Landsvirkjun og sömuleiðis hjá öðrum sem tengjast því fyrirtæki og eru þar í stjórn. Ég held að það þurfi að hafa afar skýrar reglur þarna og eðlilegt sé að ríkisendurskoðandi móti þær vinnureglur eins og lög gera ráð fyrir og það liggi alveg klárt fyrir á hvaða nótum eigi þarna að vinna því mjög mikilvægt er að ekki sé tekið fram fyrir hendurnar á mönnum í þessum efnum þó að stórir og mikilvægir meðeigendur ríkisins að fyrirtækjum eigi í hlut. Þetta vildi ég nefna að gefnu tilefni.

Aðeins að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja vegna þess sem hér hefur verið aðeins nefnt, m.a. af hv. 12. þm. Reykv., að ekki væri mikið gert með það þó að Ríkisendurskoðun væri að gera athugasemdir. Það kann vel að vera að í einhverjum tilvikum sé svo. En ég vil minna á að fjárln. hefur tekið upp athugasemdir Ríkisendurskoðunar að sjálfsögðu, athugasemdir við fram komin frv., m.a. frv. til fjáraukalaga alveg sérstaklega, bæði uppsetningu þeirra og athugasemdir um efnisatriði þannig að eins og vera ber, þá þarf að taka tillit til athugasemda.

Ég vil að lokum endurtaka þakkir fyrir ágæta skýrslu og ekki síst fyrir það merkilega framtak sem ríkisendurskoðandi stóð fyrir er hann kallaði til bresku ríkisendurskoðunina til þess að veita góð ráð og meta starfið hjá Ríkisendurskoðun sem fær býsna góða dóma.