Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:15:47 (583)

1997-10-16 15:15:47# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), Flm. ÓE
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:15]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls undir þessum lið um starfsskýslu Ríkisendurskoðendur. Ég met ræður þeirra allra þeirra þannig að þeir séu mjög jákvæðir í garð Ríkisendurskoðunar og ég held að það sé líka samdóma álit að Ríkisendurskoðun hefur sem stofnun verið að styrkjast og eflast á undanförnum árum. Það hefur orðið vegna stöðugrar endurskoðunar af hálfu stofnunarinnar sjálfrar á innra skipulagi og vinnuaðferðum og Alþingi hefur svo sem heldur ekki látið sitt eftir liggja með setningu nýrra laga á síðasta vori um Ríkisendurskoðun.

Aðeins örfá atriði vildi ég nefna sem komið hafa fram í máli hv. ræðumanna. Ég held að allir ræðumenn hafi talað um hvernig eigi að fylgja þessum skýrslum eftir og allir séu sammála um að það þurfi að finna þeim farveg. Þetta höfum við vissulega rætt áður í þinginu. Þetta hefur komið upp áður og ekki síst í fyrra þegar við ræddum einmitt um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1995. Þá kom það fram í máli nokkurra þingmanna og hv. þm. Svavar Gestsson sem hér var að ljúka máli sínu hefur oftar en einu sinni minnst á þetta atriði.

Ég er því algjörlega sammála að það þurfi að finna skýrslum sem lagðar eru fyrir Alþingi ákveðinn farveg. Hann er enginn í dag eins og komið hefur fram. Skýrslurnar eru lagðar fram, sumar þeirra ræddar og aðrar ekki. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að það eigi að stofna ákveðna nefnd í þinginu til þess að fjalla um skýrslur sem lagðar eru fyrir þingið og það er ekki eingöngu starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar sem við erum þar að tala um. Aðrar skýrslur er lagðar fyrir þingið. Ég nefni skýrslu umboðsmanns Alþingis, skýrslu umboðsmanns barna, skýrslu Byggðastofnunar og svo fjöldi skýrslna sem koma frá einstökum ráðherrum. Það er ástæða til þess að öllum slíkum skýrslum verði vísað til þingnefndar sem svo kemur með sitt álit þannig að málið komi að nýju til meðferðar í þinginu.

Með þessu er ég ekki að mæla með að nefndum verði fjölgað, aldeilis ekki og ég er sammála hv. þm. Svavari Gestssyni sem sagði áðan að það þyrfti að taka nefndakerfi þingsins til endurskoðunar og það verður áreiðanlega gert við þá endurskoðun sem nú stendur yfir á þingskapalögunum. Ég er sammála hv. þm. um að nefndum þarf að fækka en ekki fjölga þeim. Það hlýtur að verða meginviðfangsefnið.

Aðeins örfá orð um það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði í ræðu sinni. Hv. þm. taldi að það væri verið að loka stjórnsýslunni með ýmsum hætti ef ég hef tekið rétt eftir og átti fyrst og fremst við að með þessari svokölluðu hlutafélagavæðingu, þegar ríkisstofnanir væru gerðar að hlutafélögum og ríkið ætti eftir sem áður 50% eða meira eða væri jafnvel eini eigandinn í viðkomandi stofnunum sem væru gerðar að hlutafélögum, væri verið að loka fyrir upplýsingar sem Alþingi hefði áður haft. Þetta er rétt að vissu leyti. Póstur og sími hefur gjarnan verið tekinn sem dæmi um þetta. Meðan hann var hrein ríkisstofnun, þá var auðvitað hægt að fá upplýsingar með öðrum hætti en nú er hægt. Það er ljóst. En ég held nú að það megi segja að upplýsingalöggjöfin hafi fremur opnað fyrir upplýsingar en lokað á þær. Upplýsingalögin gilda vissulega eingöngu um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en ekki um löggjafarvaldið og ekki um dómsvaldið. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt. En um hlutafélög gilda hlutafélagalög sem eru á sviði einkaréttar. Það er líka rétt. Og það gildir einu hvort ríkið á 50% eða meira eða þó ríkið eigi félagið í heild. Á vissan hátt takmarkar þetta aðgang að upplýsingum en ég held að segja megi að eftirlitsréttur Alþingis hafi verið að eflast, sérstaklega með hinni nýju löggjöf um Ríkisendurskoðun og ég nefni þar til sögunnar 2. mgr. 6. gr. hinna nýju laga um Ríkisendurskoðun þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Eigi ríkissjóður helmings hlut eða meira í hlutafélagi, sameignarfélagi, viðskiptabanka eða sjóði, þar sem endurskoðandi er kosinn á aðalfundi, skal gera tillögu um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga þess aðila.``

Þetta tryggir Ríkisendurskoðun beinan aðgang að þessum hlutafélögum og Ríkisendurskoðun er stofnun sem starfar beint á vegum Alþingis. Það er hins vegar í hendi ráðherra í þessum tilvikum sem fer þá með hlutafjáreign ríkisins í slíkum hlutafélögum, alveg hliðstætt og það er í hendi hluthafafunda í hlutafélögum, að upplýsa það sem hann telur sér heimilt að upplýsa. Hann verður að hafa matið á því. En ég legg áherslu á að Ríkisendurskoðun hefur beinan aðgang að þessum hlutafélögum og ég held að það sé alveg ljóst að ef þessi hlutafélög væru að aðhafast eitthvað sem væri ekki við hæfi í félögum sem hið opinbera á, þá mundi Ríkisendurskoðun upplýsa það. Það hlyti hún að gera þannig að ég sé ekki að lokað hafi verið beint á upplýsingar, en þær berast öðruvísi en þegar um hreinar ríkisstofnanir er að ræða sem ekki eru hlutafélög. Þetta vildi ég nú segja um þetta atriði. Ég er þess vegna ekkert viss um að þetta kalli á neina sérstaka breytingu á gildandi lögum. Við höfum einmitt verið að opna þessa upplýsingagjöf með margs konar löggjöf á undangengnum árum að því er tekur til hins opinbera og það er af hinu góða alveg tvímælalaust.

Ég er nú búinn að tala um hvaða farveg eigi að fá fyrir starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar og raunar aðrar skýrslur og hér hafa menn skipst á skoðunum um hvort þetta eigi að fara til fagnefnda þingsins eða til sérstakrar nefndar. Það er mín skoðun að þessar skýrslur eigi að fara til sérstakrar nefndar eins og ég sagði áðan.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir gagnrýndi það að skýrsla bresku ríkisendurskoðunarinnar hefði ekki verið lögð fyrir þingið fyrr en í morgun. Það má sjálfsagt gagnrýna það. En við erum hér fyrst og fremst að fjalla um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar en ekki beint um úttektarskýrsluna þó að vissulega sé tilefni til að ræða hana sérstaklega. Það hefði vissulega verið betra að geta dreift henni fyrr, en það var því miður ekki hægt. Það hafði fyrir löngu verið ákveðið að taka þetta mál til umfjöllunar á þessum degi. Það hefði sjálfsagt mátt breyta því svo sem líka.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir nefndi líka að henni þætti sem lítið væri gert með athugasemdir Ríkisendurskoðunar af hálfu ráðuneytanna. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé rétt fullyrðing. Ég held að ráðuneytin yfirleitt taki mark á því sem kemur frá Ríkisendurskoðun og mér er vel kunnugt um það, bæði af veru minni í ráðuneyti og eins hér sem forseti Alþingis, að Ríkisendurskoðun fylgir því eftir. Hún gerir athugasemdir og sé ekki bætt úr, þá fylgir Ríkisendurskoðun því eftir. Það þekki ég mætavel og ég trúi ekki öðru en ráðuneytin yfirleitt og ríkisstofnanir fari að ábendingum Ríkisendurskoðunar. Það er svo hins vegar spurning sem mér þótti hv. þm. Guðrún Helgadóttir vera aðeins að velta fyrir sér, hvort Ríkisendurskoðun eigi að koma með beinar tillögur til viðkomandi ráðuneyta eða ríkisstofnana um hvað þessar stofnanir eigi að gera. Þetta ræddum við töluvert þegar við vorum að undirbúa frv. sem varð að lögum um Ríkisendurskoðun á liðnu vori og við vorum, held ég, sammála um að það væri ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar að koma með beinar tillögur um hvernig bæta ætti vinnubrögð. Aðrar stofnanir á vegum ríkisins gera það.

Ég get tekið undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að það hefði verið heppilegt að hin nýju lög hefðu fylgt starfsskýrslunni og kannski væri eðlilegt að prenta lögin um Ríkisendurskoðun með starfsskýrslunni yfirleitt þannig að menn hafi þau við hendina. Ég held að það væri vel til athugunar. Þau eru ekki svo langur lagabálkur.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki fleira sem ég þarf að taka fram eða að tilefni sé til vegna þess sem hér hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þær undirtektir sem starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar hefur fengið í þinginu.