Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:38:54 (590)

1997-10-16 15:38:54# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:38]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi þá er nú enginn meginforseti í þessu þingi, það er bara forseti Alþingis.

Það er sjónarmið út af fyrir sig hvort Alþingi vill breyta lögunum um hlutafélög í þá veru sem hv. þm. nefndi. Það kemur kannski alveg til greina að ef hlutafélagið er að meiri hluta til í eigu ríkisins þá hafi það einhverjar aðrar skyldur en önnur hlutafélög. Það er mál sem við þurfum þá að ræða í þinginu og ég ætla ekki að tjá mig um hvort það sé eðlilegt. Skýrsla forsrh. um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins er auðvitað ekki hér til umræðu en við hv. þm. höfum sjálfsagt allir lesið hana.

Með leyfi forseta stendur hér á einum stað, það er í kaflanum um ákvæði ársreikningslaga. Það segir hér um ráðherrann, með leyfi forseta:

,,Honum er hins vegar óskylt að gefa upplýsingar fram yfir þetta. Honum er því t.d. ekki skylt að gefa upplýsingar um sundurliðun einstakra útgjaldaliða með þeim hætti sem áður getur.``

Svo kemur: ,,Honum er þetta heldur ekki heimilt gagnvart félaginu ef upplýsingarnar geta skaðað hagsmuni þess.``

Þetta verðum við að hafa í huga þegar verið er að krefja ráðherra um svör við tilteknum atriðum. Við höfum heyrt röksemdir fyrir hlutafélagavæðingunni, m.a. í þá veru að þessar ríkisstofnanir muni ekki standast samkeppnina nema þær verði gerðar að hlutafélögum. Þetta höfum við heyrt í umræðunni á hv. Alþingi. Ég held að ráðherrann sem heldur á hlutabréfunum eða hlutabréfinu, eins og við þekkjum líka, verði að meta hvað honum er skylt að gera og svo hvort honum er yfirleitt heimilt að veita tilteknar upplýsingar sem beðið er um. Þetta verður viðkomandi ráðherra að meta.