Atvinnusjóður kvenna

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:20:23 (595)

1997-10-16 16:20:23# 122. lþ. 11.6 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., Flm. DH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:20]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við tillöguna en þess má geta að hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, var einmitt félmrh. þegar byrjað var að úthluta úr kvennasjóðnum. Ég vil skýra atvinnuleysi kvenna mikið út af þeirri atvinnuþróun sem hefur orðið í landinu og því miður hefur í gegnum tíðina oft verið talað mjög niðrandi til atvinnu kvenna sem hefur oft verið kölluð kvennadútl og ætti það náttúrlega aldrei að heyrast.

Hjá félmrn. er vinnumálastofnun þar sem er verið að gera mjög góða hluti. Þar eru námskeið fyrir atvinnulausa þar sem lögð er áhersla á að byggja sjálfstraust og kennt hvernig á að sækja um vinnu. Það skiptir mjög miklu máli fyrir atvinnulausa að þeir hafi traust á sjálfum sér því að það er mjög erfitt að sækja um vinnu ef maður hefur ekki traust á sjálfum sér og getur borið höfuðið hátt.

Samgöngur skipta konur líka miklu máli og tala ég þá sem landsbyggðarmaður. Margar konur verða að sækja vinnu um langan veg eftir holóttum malarvegum og börn í skóla. Það þyrfti að gera miklu meira í að laga malarvegina.

Með öllum þeim samdrætti, sem hefur orðið í landbúnaði og búin hafa sum orðið það lítil að ekki er atvinna nema fyrir einn, þá verða konur náttúrlega að finna sér eitthvað annað að gera og þar hefur kvennsjóðurinn komið mörgum konum vel. Ég held að með því að líta yfir þetta þurfum við aðeins að breyta reglunum. Þær hafa verið nokkuð þröngar og ég sem stend hér hef reyndar verið í ráðgjafarhóp þar sem er ein kona úr hverju kjördæmi. Við höfum hist einu sinni á ári og farið yfir málin með aðstoðarmanni félmrh. og öðrum úr félmrn. Ráðgjafarhópurinn hefur unnið þetta alveg í sjálfboðavinnu eins og konum er oft gjarnt að gera. (KÁ: Það gat nú verið.) Það gat nú verið, segir hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir.

Það er ljóst að konum fer fækkandi á landsbyggðinni og væri fróðlegt að sjá hve margar konur eru í þeim hópi sem hefur streymt til höfuðborgarsvæðisins á síðustu níu mánuðum.

Ég þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við tillöguna og gjarnan mætti efla þennan sjóð.