Lögmenn

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:30:56 (637)

1997-10-20 15:30:56# 122. lþ. 12.3 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:30]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að fá fram skýringu hæstv. ráðherra á þessu og nefndin mun sjálfsagt taka þetta til skoðunar þegar hún fjallar um frv. Í úrskurði Samkeppnisstofnunar er talað um svo ég vitni orðrétt í það: ,,... ekki til þess bæran aðila að gefa út leiðbeinandi reglur um gjaldtöku lögmanna.``

Hæstv. ráðherra vitnaði í svari sínu í að Lögmannafélagið ætti að setja samræmdar reglur um kostnað. Ég sé út af fyrir sig ekki mikinn mun á þessu. Samræmdar reglur um kostnað getur Lögmannafélagið sett samkvæmt ákvæði frv. en Samkeppnisstofnun telur að Lögmannafélagið sé ekki til þess bær aðili að gefa út leiðbeinandi reglur. Við verðum að fara yfir þetta í nefndinni. Ég lít svo á að ráðherrann telji að þetta stangist ekki á við úrskurð Samkeppnisstofnunar nema annað komi fram í svari hans. Ég spyr ráðherrann að því hvort hann telji ekki rétt með tilliti til þessa mikla kostnaðar sem er oft hjá lögmönnum vegna vanskila og skulda einstaklinga að setja þak á innheimtuþóknun þeirra og aðra gjaldtöku af skuldurum. Mörg dæmi hafa verið rakin um að kostnaðurinn sem leggst á skuldara sé óeðlilega hár og ekki bara af lögmönnum heldur líka af ríkinu sjálfu í formi alls konar gjalda. Ég held að það sé ein leið til þess að draga úr og bæta stöðu skuldara að sett sé ákveðið þak á innheimtuþóknun þeirra. Ég spyr sérstaklega um það atriði og hvort það sé álit ráðherrans sem væri þá gott að fá fram vegna vinnu nefndarinnar í málinu og hvort hann telji að ákvæðið stangist ekki á við úrskurð Samkeppnisstofnunar frá 1994.