Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 13:40:58 (681)

1997-10-21 13:40:58# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[13:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þegar spurt er um ábyrgð menntmrn. á grunnskólunum er rétt að vísa til laga nr. 66/1995, um grunnskóla, og reglugerðar nr. 384/1996, um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald og reglugerð nr. 516/1996, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum. Samkvæmt þeim lögum og reglum sem eru í gildi er hlutverk ráðuneytisins í stórum dráttum þríþætt: Í fyrsta lagi almennt kerfisbundið eftirlit með því að skólastarfið sé samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Þessi þáttur byggir á því að aflað sé ítarlegra upplýsinga frá skólum og sveitarstjórnum á ári hverju. Hér er annars vegar um að ræða tölulegar upplýsingar sem afla skal ár hvert og hins vegar aðrar upplýsingar sem einnig geta verið tölulegar um skólahald sem aflað er með vissu árabili eða þegar þurfa þykir.

Í öðru lagi ber ráðuneytinu að hafa eftirlit með gæðum skólastarfs. Samkvæmt lögum og reglugerðum á öllum skólastigum skulu skólar láta fara fram mat á innra starfi skóla, sjálfsmat og felst eftirlitshlutverk ráðuneytisins m.a. í úttektum og sjálfsmatsaðferðum skóla. Einnig getur ráðuneytið látið gera úttektir og ytra mat á einstökum þáttum skólastarfs eða heildarmat á starfi einstakra skóla. Ráðuneyti sinnir jafnframt tilfallandi beiðnum sem berast, svo sem ef skólar eða sveitarstjórnir óska eftir úttektum á skólum eða háskóladeildum af ákveðnum tilgreindum ástæðum.

Í þriðja lagi ber ráðuneytið ábyrgð á því að haldin séu samræmd próf í grunn- og framhaldsskólum og er tilgangur prófanna fyrst og fremst sá að kanna hvort markmiðum náms samkvæmt aðalnámskrá hafi verið náð. Ráðuneytið tekur einnig þátt í ýmsum fjölþjóðlegum samanburðarrannsóknum á árangri skólastarfs. Berist menntmrn. skriflegar upplýsingar eða formleg kæra vegna framkvæmdar skólastarfs tekur ráðuneytið afstöðu til hverju sinni hvernig bregðast skuli við og lætur fara fram athugun á málinu eftir því sem við á. Einnig getur ráðuneytið haft frumkvæði að athugun á einstökum þáttum skólahalds þegar fyrir liggja sterkar vísbendingar um misbrest í skólastarfi.

Samkvæmt lögum um leik- og grunnskóla er rekstur og faglegt starf skólanna alfarið á ábyrgð sveitarstjórna sem bera ábyrgð á að skólahald fari fram samkvæmt lögum og reglugerðum. Sveitarstjórnum ber því lögum samkvæmt að leysa úr þeim ágreinings- og vandamálum sem kunna að koma upp við framkvæmd skólahalds. Að öllu jöfnu beinist eftirlit ráðuneytisins því ekki að daglegum störfum og rekstri leik- og grunnskóla.

Þetta eru hinar formlegu skyldur sem menntmrn. ber samkvæmt lögum og reglugerðum er gilda um grunnskóla og alþingismenn þekkja það vel því við höfum samþykkt þessi lög og sett ráðuneytinu þann starfsramma varðandi grunnskólann.

Að því er varðar kjaramál kennara og þær hugleiðingar sem fram komu í máli hv. þm. um þau efni kemur fram þegar farið er yfir gögn sem snerta flutning grunnskólans til sveitarfélaganna að aldrei var gert ráð fyrir því að ríkið hefði afskipti af kjaramálum kennara og það kemur hvergi fram nokkurs staðar að ríkið eigi að koma að því. Þvert á móti var samið um það í þessu samkomulagi að ósk kennarasamtakanna að í þrjú ár a.m.k. kæmu sveitarfélögin fram sameinuð gagnvart kennarasamtökunum og launanefnd sveitarfélaga semdi fyrir hönd sveitarfélaganna við kennara um kaup þeirra og kjör. Einnig var staðið þannig að málum þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna að réttarstaða kennara var alveg skýr eins og menn muna sem tóku þátt í umræðum um þau mál hér á Alþingi og réttindi kennara breyttust í engu við flutninginn frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Að því er varðar hina fjárhagslegu hlið málsins var sá þáttur einna best kannaður og skoðaður þegar gengið var frá þessu samkomulagi og um það efni náðist einnig fullt samkomulag. Það er ljóst að grunnskólinn fer frá ríkinu til sveitarfélaganna með auknum fjármunum og því verður ekki á móti mælt. Þá lá alltaf ljóst fyrir einnig að það kæmi til þess að kjarasamninga þyrfti að gera við kennara og sveitarfélögum var það að sjálfsögðu ljóst þegar þetta samkomulag var gert og hvergi koma fram nein tilmæli um að ríkissjóður komi að kjarasamningum með einum eða öðrum hætti eða leggi fram fé vegna þessa. Í þessu eins og öllu að því er varðar flutning grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaganna liggja öll mál alveg skýr og klár fyrir og ég vona svo sannarlega að það tilboð sem nú er kynnt að verði lagt fram í dag í þessari viðkvæmu kjaradeilu sem vonir okkar allra standa til að leysist með samningum verði til þess að greiða fyrir lausn þessa viðkvæma og vandasama máls.