Öryggismál í skólum

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:43:19 (742)

1997-10-22 13:43:19# 122. lþ. 14.1 fundur 46. mál: #A öryggismál í skólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta svar hæstv. menntmrh. var vont, sér í lagi af því það kemur frá þeim manni sem á halda sinni föðurlegu verndarhendi yfir öllum skólabörnum landsins. Ég lagði fram tvær fyrirspurnir. Hin fyrri fólst í því hvort hann hygðist beita sér fyrir því að fræðsla um öryggi barna yrði tekin upp sem hluti af námsefni grunnskólans. Hæstv. ráðherra svaraði bæði já og nei. Hann svaraði já, með því að segja að nú stæði yfir endurskoðun á aðalnámskrá og þá skapaðist svigrúm til þess að taka þetta upp. Hins vegar svaraði hann nei, því hann sagði líka að það þyrfti að bíða eftir því að þessari endurskoðun yrði lokið og þá þyrftu menn að kanna hvort nauðsynlegt væri að setja sérstakar reglur. Bestu rökin fyrir því að þetta yrði gert lagði hann hins vegar fram sjálfur þegar hann minntist á að nú þegar væri ákveðin fræðsla í gangi sem lyti að umferðaröryggi. Það er nefnilega hárrétt hjá ráðherranum. Sú fræðsla er í gangi. Og til hvers hefur hún leitt? Hún hefur leitt til þess að umferðarslys á börnum eru tiltölulega lægri á Íslandi en á Norðurlöndunum og það er eini slysaflokkurinn sem það gildir um.

Hæstv. ráðherra sagði líka að hann mundi ekki beita sér fyrir því að taka upp sérstakar reglur um öryggismál í skólum. Samt er það þannig að á síðustu árum hefur verið dregið úr þeirri menntun sem kennaranemar fá á þessu sviði. Fyrir þremur til fjórum árum var skyndihjálp enn þá hluti af kjarnanámi kennaranema. Svo er ekki lengur. Einungis þeir kennaranemar sem taka íþróttir sem val fá slíka kennslu. Hæstv. ráðherra getur spurt yfirmenn Kennaraháskólans, hann getur spurt forstöðumenn kennarasamtakanna á Íslandi, hann getur spurt hvern einasta skólastjóra á landinu og þeir munu allir gefa honum sama svar. Þeir telja að nauðsyn sé á þessum reglum. Hvers vegna? Vegna þess að skólaslys hér á landi eru óhugnanlega tíð. Þau eru miklu tíðari en annars staðar og það er hægt að færa rök að því að á allra síðustu missirum hafi orðið a.m.k. tvö slys þar sem skaðinn sem af hlaust var miklu alvarlegri fyrir þá sök að þeir skólastarfsmenn sem voru viðstaddir kunnu einfaldlega ekki að taka á þessum málum. Ég held þess vegna, herra forseti, að við sem erum áhugamenn um þetta eigum því engan kost annan en að leggja fram frv. um þetta fyrst hæstv. ráðherra vill ekki hysja upp um sig buxurnar í þessu máli.