Áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:47:58 (744)

1997-10-22 13:47:58# 122. lþ. 14.2 fundur 47. mál: #A áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 47 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um áhrif lýsingar á Reykjanesbraut á slysatíðni. Reykjanesbrautin er einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins og eina tengingin við allt millilandaflug okkar. Umferðin er mjög mikil, enda búa tveir þriðju hlutar þjóðarinnar í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi þar sem Reykjanesbrautin er miðpunktur allra samgangna. Reykjanesbrautin tengir ekki aðeins Suðurnesin við höfuðborgarsvæðið heldur er hún mjög mikilvæg fyrir alla ferðaþjónustu og atvinnulíf innan svæðisins og allir vegir frá Reykjavík liggja inn í Reykjaneskjördæmi.

Þingmenn Reykjaneskjördæmis hafa lengi barist fyrir því að Reykjanesbrautin verði tvöfölduð. Ekki hefur orðið af því enn þá, en það væri þó mjög brýn framkvæmd og þjóðhagslega hagkvæm. Fyrir baráttu þingmanna Reykn. var þó ráðist í að lýsa upp Reykjanesbrautina. Það gekk ekki þrautalaust en samstaða þingmanna úr öllum flokkum og heimamanna tryggði þá framkvæmd. Óhætt er að segja að almenn ánægja sé með þá framkvæmd.

Nú er hins vegar ástæða til, herra forseti, að meta árangurinn þótt ekki sé langur tími liðinn, einkum hvað varðar slys. Það hafa oft orðið mjög alvarleg slys á Reykjanesbrautinni og því sé ég ástæðu til að spyrja hæstv. samgrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hver er fjöldi og umfang slysa sem hafa orðið á Reykjanesbraut eftir að lýsing var sett upp við veginn, borið saman við sambærileg tímabil á fyrri árum?

2. Hafi slysum fækkað, hver er áætlaður sparnaður þjóðfélagsins frá því að lýsingin var sett upp?

3. Telur ráðherra að brýnt sé að setja lýsingu við aðra fjölfarna vegi landsins, t.d. á Hellisheiði, og hyggst hann beita sér fyrir slíkum framkvæmdum?