Bann við kynferðislegri áreitni

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 15:05:55 (794)

1997-10-23 15:05:55# 122. lþ. 16.10 fundur 40. mál: #A bann við kynferðislegri áreitni# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:05]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um bann við kynferðislegri áreitni, sem er 40. mál á þskj. 40. Flm. auk mín eru hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir, Hjálmar Árnason, Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Um er að ræða bandormsfrv. Þetta er breyting á tvennum lögum, annars vegar lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og hins vegar lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Fyrri efnisgrein 1. gr. frv. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Kynferðisleg áreitni á vinnustað og í skóla er bönnuð. Atvinnurekendur og yfirmenn skulu gera sérstakar ráðstafanir til að sporna við því að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar í trúnaðarsambandi verði fyrir kynferðislegri áreitni eða annarri ósæmilegri framkomu á vinnustað eða í skólum.``

Síðari hluti greinarinnar tekur til skilgreiningar á fyrirbærinu og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu, hvort sem hún er líkamleg, orðbundin eða myndræn, og sem haldið er áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.``

Í athugasemdum með þessari grein segir, með leyfi forseta:

,,Í þessari grein er annars vegar lagt til að inn í jafnréttislögin komi skýrt bann við kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og í skólum og að atvinnurekendur og yfirmenn skuli gera sérstakar ráðstafanir til að sporna við því að starfsfólk, nemar eða skjólstæðingar í trúnaðarsambandi verði fyrir kynferðislegri áreitni og annarri ósæmilegri framkomu á vinnustað eða í skólum. Gert er ráð fyrir að vitneskja atvinnurekenda sé forsenda bótaskyldu hans, þ.e. starfsmaður, nemi eða skjólstæðingur þarf að láta atvinnurekanda, yfirmann skóla eða stofnunar vita að hann verði fyrir kynferðislegri áreitni til að viðkomandi fái tækifæri til að beita öllum nauðsynlegum ráðstöfunum til að stöðva athæfið. Einungis ef hann gerir það ekki verði atvinnurekandi eða yfirmaður bótaskyldur þó að athafnir gerandans séu ætíð refsiverðar.

Hins vegar er hér verið að lögfesta skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Skilgreiningin er byggð á þeim megineinkennum kynferðislegrar áreitni sem reynsla og rannsóknir sýna að skipta meginmáli, þ.e. að um óvelkomna hegðun er að ræða að mati viðkomandi einstaklings, og að hegðunin er endurtekin þrátt fyrir það að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Stuðst er m.a. við skilgreiningar og leiðbeiningarreglur Evrópusambandsins um kynferðislega áreitni. Eitt tilvik getur þó talist kynferðisleg áreitni ef það er nægilega alvarlegt og því þykir rétt að bæta því við skilgreininguna.

Með orðalaginu ,,annarri ósæmilegri framkomu`` er m.a. átt við einelti í víðari merkingu en einnig má benda á ákvæði 209. gr. almennra hegningarlaga um brot gegn blygðunarsemi.``

2. gr. frv. varðar einnig breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og hún hljóðar svo, með leyfi foreta:

,,Á eftir 8. gr. laganna (sem verður 9. gr.) kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það:

Atvinnurekendum, yfirmönnum, samstarfsmönnum og kennurum er óheimilt að láta kvartanir starfsfólks eða nema um kynferðislega áreitni eða kynjamismunun bitna á starfi þeirra eða námi, starfsöryggi, starfskjörum eða mati á árangri í starfi eða námi.``

Í athugasemdum með þessari grein er m.a. bent á að hér er um að ræða grein sem er efnislega svo til samhljóma 22. gr. sænsku jafnréttislaganna.

Annar kafli frv. varðar breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. 3. gr. hljóðar svo, með leyfi foreta:

,,C-liður 65. gr. laganna orðast svo: stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.`` Og við það ákvæði bætist: ,,Ákvæði þetta á m.a. við bann við kynferðislegri áreitni og annarri ósæmilegri framkomu sem beinist að kynferði einstaklinga.``

Síðan er það 4. gr. sem er gildistökugrein.

Í athugasemdum með 3. gr. segir að þessi breyting eigi sér samsvörun í norsku vinnuverndarlöggjöfinni frá árinu 1977 sem síðan var breytt árið 1995, en þar segir að starfsmenn skuli ekki verða fyrir kynferðislegri áreitni eða annarri ósæmilegri hegðun. Í greinargerð með norska frv. er vísað í það megineinkenni kynferðislegrar áreitni að það sé óvelkomin hegðun að mati þess sem fyrir henni verður og að slíkt ákvæði sé nauðsynlegt vegna vaxandi athygli á einelti og kynferðislegri áreitni í þjóðfélaginu. Vinnueftirlit ríkisins fagnar framkomnu ákvæði í umsögn sinni um frv.

Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Ég tel að það sé mjög brýnt að svona ákvæði séu lögtekin hér á landi þar sem búast má við því að það muni hafa mikið fyrirbyggandi gildi, eins og segir í athugasemdum við 4. gr., m.a. vegna þess að löggjöfin mun hvetja til þess að vinnustaðir komi sér upp skýrum reglun um mál er varða kynferðislega áreitni.

Svona hljómar þá texti sjálfs frv. Það var áður lagt fram á síðasta þingi, 121. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt enda náðist ekki að mæla fyrir því fyrr en undir þinglok. Það var sent til umsagnar og umsagnir bárust í sumar og liggja nú fyrir. Umsagnir hafa borist frá eftirtöldum aðilum: Jafnréttisráði, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Alþýðusambandi Íslands, jafnréttisráðgjafanum í Reykjavík, jafnréttisfulltrúa Akureyrar, biskupi Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, Kvennaathvarfinu, Kvenfélagasambandi Íslands, Læknafélagi Íslands, Stígamótum, Kvennaráðgjöfinni, félagsmálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og laganefnd Lögmannafélags Íslands. Ef frá er talinn síðastnefndi aðilinn telja allir sem umsagnir sendu að löggjöf af þessu tagi sé þörf og langflestir mæla með að frumvarpið verði lögfest óbreytt. Efnislegar athugasemdir komu einnig fram og er hér tekið mið af þeim sem ástæða þótti til.

[15:15]

Mig langar, herra forseti, að stikla á helstu atriðum úr grg. frv. því kynferðisleg áreitni hefur ekki mikið verið til umræðu í þessu þjóðfélagi fyrr en kannski fyrir einu til tveimur árum og ég tel þegar hafa orðið töluverð viðhorfsbreyting til þessa fyrirbæris, þ.e. ég held að umræða sé mjög af hinu góða.

Kynferðisleg áreitni hefur verið mikið til umfjöllunar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Flest aðildarríki Evrópusambandsins hafa gripið til ráðstafana á þessu sviði, svo sem lagasetningar, fræðsluherferða eða leiðbeinandi reglna fyrir vinnustaði og menntastofnanir. Í Belgíu, Hollandi og Frakklandi hafa verið sett sérstök lög um kynferðislega áreitni og slík löggjöf er nú í undirbúningi í Austurríki og Hollandi. Í Svíþjóð og nokkrum öðrum Evrópuríkjum eru ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislögum og í lögum um vinnuvernd, t.d. í Noregi. Innan Evrópusambandsins er nú unnið að sérstakri tilskipun um kynferðislega áreitni sem væntanlega mun einnig taka til Evrópska efnahagssvæðisins. Og væri nú gaman ef við Íslendingar yrðum nú einu sinni á undan en þyrftum ekki að breyta okkar lögum vegna fyrirskipana frá Evrópska efnahagssvæðinu.

Í 6. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, nr. 28/1991, segir að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um vinnuaðstæður og vinnuskilyrði. Kærunefnd jafnréttismála hefur túlkað þetta ákvæði þannig að atvinnurekanda beri að sjá til þess að kynferðisleg áreitni viðgangist ekki á vinnustað. Í sænsku jafnréttislöggjöfinni eru hins vegar skýr ákvæði um kynferðislega áreitni, sbr. 6. og 22. gr. sænsku jafnréttislaganna (1991:433), sem hefur orðið til þess að stofnanir hafa í vaxandi mæli sett sér starfsreglur um það hvernig beri að stemma stigu við og taka á kynferðislegri áreitni. Það þykir nokkuð viðurkennt að löggjöfin hafi haft fyrirbyggjandi gildi í Svíþjóð.

Ekki þykir nauðsynlegt að svo stöddu að setja sérstaka löggjöf um kynferðislega áreitni, en tímabært þykir að setja ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislög og í vinnuverndarlöggjöfina eins og hér er lagt til. Í Svíþjóð og Noregi hefur slík lögfesting haft þau áhrif að stofnanir hafa orðið að taka á þessum málum af meiri festu en áður. Þegar slík ákvæði hafa verið lögfest verður brýnt að stofnanir komi sér upp skipulagðri meðferð eða leiðbeinandi starfsreglum fyrir mál af þessum toga og að markviss fræðsla um kynferðislega áreitni verði í boði, sbr. þingsályktunartillögu á 121. löggjafarþingi, 40. mál, sem ég flutti þá og fyrirhugað er að flytja einnig síðar á þessu þingi. Starfsreglur stofnana um kynferðislega áreitni hafa yfirleitt bæði fyrirbyggjandi tilgang og er ætlað að leysa þau mál sem upp koma og ekki eru kærð.

Kynferðisleg áreitni var gerð refsiverð að lögum árið 1992 með breytingu á almennu hegningarlögunum og hægt er að finna ákvæði þar að lútandi í 198., 200., 201. og 202. gr. almennu hegningarlaganna.

Ekki er þó að finna í hegningarlögunum skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Í greinargerð með þeim lögum er að finna skilgreiningu sem að mati flutningsmanna er ekki nægjanlega skýr miðað við reynslu og rannsóknir á þessu fyrirbæri. Skilgreiningin í greinargerðinni er eftirfarandi: Um er að ræða háttsemi sem ekki telst slík misnotkun á líkama að hún komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt. Átt er við ýmiss konar káf, þukl og annars konar líkamlega snertingu og ljósmyndun af kynferðislegum toga. Þá segir í þessari greinargerð frá 1992 að rétt þyki að veita slíkri háttsemi meiri athygli en áður og taka harðara á brotum. Ekki er gerð tillaga um að breyta fyrrnefndum ákvæðum almennra hegningarlaga þar sem rétt þykir að fá meiri reynslu af hvernig þau nýtast. Hér er lagt til að skilgreining á kynferðislegri áreitni verði lögbundin og að sú skilgreining, ef lögfest verður, verði lögð til grundvallar skýringu og túlkun þessara ákvæða almennra hegningarlaga til viðbótar við þá skilgreiningu sem er í greinargerðinni með lögum nr. 40/1992. Einnig er bent á leiðbeiningarreglur Evrópusambandsins til nánari skýringar á kynferðislegri áreitni. Frá árinu 1992 hefur lítið reynt á fyrrnefnd ákvæði almennra hegingarlaga. Nýlega hafa þó fallið tveir dómar um kynferðislega áreitni. Athyglisvert er að í báðum dómunum er um karlmenn að ræða, þ.e. karlmenn að áreita karlmenn. Það er athyglisvert vegna þess að allar tiltækar kannanir benda til að konur verði mun oftar fyrir kynferðislegri áreitni en karlar.

Það er eindregin skoðun flutningsmanna að mikilvægt sé að lögfesta skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Í skilgreiningunni sem sett er fram í 1. gr. frumvarpsins er áhersla lögð á það megineinkenni kynferðislegrar áreitni að hegðunin er óvelkomin. Það er því mat einstaklingsins sem ræður því hvaða hegðun er viðurkennd og hvaða hegðun er óvelkomin. Kynferðisleg hegðun verður áreitni ef henni er haldið áfram þrátt fyrir að það hafi verið gefið skýrt í skyn að hún sé óvelkomin. Þó getur eitt tilvik, eins og áður sagði, talist kynferðisleg áreitni ef það er nægilega alvarlegt. Hér er m.a. stuðst við skilgreiningu og útlistun Evrópusambandsins á kynferðislegri áreitni í starfsreglum frá 1992. Þessi skilgreining er útlistuð nákvæmlega í greinargerðinni. Ég ætla að lesa hana því það sést alveg skýrt að það er kjarninn úr þessu atriði sem er tekið í þá skilgreiningu sem ég legg til að hér verði lögfest. En skilgreiningin er svona, með leyfi forseta:

,,Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun eða önnur kynbundin hegðun sem hefur áhrif á sjálfsvirðingu kvenna og karla á vinnustað. Þessi óvelkomna hegðun getur verið líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni nær því yfir margs konar hegðun sem er óvelkomin, óskynsamleg og móðgandi fyrir viðkomandi; það hvort viðkomandi viðurkennir eða mótmælir slíkri hegðun af hálfu yfirmanns eða samstarfsmanns skiptir máli beint eða óbeint fyrir aðgang viðkomandi að starfsþjálfun, atvinnu, hvort starfi er haldið, stöðuhækkun, laun eða annað viðkomandi starfsumhverfi; og/eða hegðunin skapar óþægilegt, fjandsamlegt eða auðmýkjandi vinnuumhverfi fyrir þann sem hegðunin beinist að. Megineinkenni kynferðislegrar áreitni er að hegðunin er óvelkomin, og það er mat einstaklingsins sem ræður því hvaða hegðun er viðurkennd og hvaða hegðun er talin móðgandi. Kynferðisleg hegðun verður áreitni ef henni er haldið áfram þrátt fyrir að það hafi verið gefið skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Þó getur eitt tilvik talist kynferðisleg áreitni ef það er nægilega alvarlegt. Það er fyrst og fremst það einkenni að hegðunin er óvelkomin sem aðgreinir kynferðislega áreitni frá vinalegri hegðun sem er velkomin og gagnkvæm.``

Þessa skilgreiningu má finna í mjög mörgum rannsóknum. Ég hef rætt hana núna við marga fréttamenn og ýmsa aðila og ég held að ef maður hlustar vel á um hvað þetta mál fjallar þá sé það alveg skýrt.

Rannsóknir í háskólum á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum benda til að 10--20% kvenna verði fyrir kynferðislegri áreitni í háskólum, en allt upp í 40% þegar um æðri námsgráður er að ræða. Meðal karla eru tölurnar töluvert lægri. Samkvæmt könnun jafnréttisnefndar Helsinkiháskóla árið 1995 töldu 10,8% starfsfólks og 5,5% stúdenta sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Af þeim voru 78% starfsfólksins og 70% stúdentanna konur.

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég er að tala um háskóla þá langar mig að geta þess að í nýrri blaðagrein frá 17. október, Times Higher Education Supplement, er talað um hvað þetta sé orðið gífurlegt vandamál í háskólum í Afríku. Það er talað um 100 háskóla í Afríku þar sem í ljós hafi komið að á undanförnum árum hafi kvenstúdentar hætt óvenjulega mikið í námi. Þegar var farið að rannsaka vandamálið kom í ljós að það tengist því að skólagjöld voru lögð á. Konur eru mjög hræddar við að falla og þá urðu þær auðveld bráð fyrir karlkennara, en 88% kennara eru karlar í þessum 100 háskólum í Afríku. Þessar upplýsingar eru mjög athyglisverðar að mínu mati vegna þess að þó að fjöldi kennara sér svipaður og hér, þ.e. karlkennarar eru í miklum meiri hluta, hefur staða kvenna í Afríku verið mun lakari en á Vesturlöndum og þar sem þeim finnst tímabært að taka á þessu máli þá held að það hljóti að vera fyrir löngu talið tímabært að við gerum eitthvað í lagasetningu á þessu sviði.

Bandarískar rannsóknir á vinnustöðum benda almennt til að um 40% kvenna og um 15% karla verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum en evrópsku tölurnar eru almennt töluvert lægri eða 10--20% meðal kvenna. Skýringarnar á þessum mun eru að hluta til menningarlegar, en einnig getur verið um mismunandi skilgreiningar að ræða. Ég vil geta þess vegna þess að ég var að tala um háskóla áðan að ekki liggja fyrir tölur um rannsóknir á þessu við háskóla á Íslandi, en það hafa komið upp tilvik af þessum toga á undanförnum árum sem hafa orðið til þess að Háskóli Íslands hefur þegar tekið formlega á þessum málum og vonandi verður það í sem flestum skólum á næstunni.

Í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um jafnrétti kynjanna frá árinu 1993 er gert ráð fyrir að í vinnuverndartilgangi verði staðið að könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum á Íslandi og umfangi hennar. Á grundvelli könnunarinnar og þeirrar þekkingar, sem liggur fyrir hjá öðrum þjóðum, verði unnið markvisst að því að sporna við kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Þessi könnun hefur nú verið gerð og ekki þykir ástæða til að bíða lengur með að lögfesta bann við og skilgreiningu á kynferðislegri áreitni eins og hér er lagt til. Niðurstöður þessarar könnunar hafa ekki verð birtar enn þá en það sem ég hef heyrt af þeim staðfestir að þetta er vissulega vandamál hér á landi sem annars staðar.

Umræðan í þjóðfélaginu bendir ótvírætt til að töluvert vanti á að fólk skilji að kynferðisleg áreitni er einelti og mannréttindabrot sem ekki á að líða, hver sem í hlut á. Flest nágrannalanda okkar hafa brugðist markvisst við og hér er lagt til að svo verði gert.

Virðulegi forseti. Ég legg til að í lok þessarar umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.