Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:38:09 (915)

1997-11-04 14:38:09# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög margþætt mál. Í fyrsta lagi tengist það einkavæðingu Pósts og síma, þ.e. einkavæðingu fyrirtækis í einokunaraðstöðu. Í öðru lagi tengjast því ýmsar breytingar í tæknilegum efnum og svo í þriðja lagi sú ákvörðun Alþingis að hrinda langþráðu baráttumáli margra í framkvæmd að gera landið allt að einu gjaldsvæði.

Ég hlýt að harma það, herra forseti, að sú ákvörðun að jafna símakostnað og gera landið að einu gjaldsvæði skyldi vera dregin inn í óskylda hluti sem voru gjaldskrárbreytingar og hækkanir Pósts og síma að öðru leyti. Það var afar slæmt og leiddi til þess að þessar hækkanir urðu langt umfram það sem nokkur ástæða var til, til þess að jafna símakostnaðinn og gera landið að einu gjaldsvæði. Þetta var þeim mun viðkvæmara og eðlilegra að mótmælin yrðu hávær, eftir því sem fjarskiptakerfið er orðið mikilvægari farvegur fyrir upplýsingar og samskipti af ýmsum toga og þá á ég ekki síst við internetið og alla þá fjölmörgu sem það nýta sér.

Reyndar er óhjákvæmilegt að minna líka á þann ótrúlega atburð þegar hæstv. forsrh. tók hæstv. samgrh. sinn og nánast hýddi hann á almannafæri. Það var sviðsett niðurlæging á hæstv. samgrh. sem fram fór í ráðherrabústaðnum og í viðtölum við blaðamenn eftir hann. Þar sem þetta er nú frekar að verða reglan heldur en undantekningin að hæstv. forsrh. velji sér hentugt tækifæri þegar einhver af ráðherrum hans liggur í svaðinu og hoppi ofan á skrokknum, þá hlýtur maður að spyrja sig að því hver verður næstur. Hver verður næstur? En niðurstaðan er eftir sem áður sú að hækkanirnar gengu til baka og það er gott því þær voru óhóflegar og með rangindum hengdar á það ágæta mál að gera landið allt að einu gjaldsvæði.

Við vöruðum við því að einkavæða Póst og síma á þann hátt sem gert var. Það hefur alls staðar gefist illa og það er að gefast illa hér á Íslandi að einkavæða fyrirtæki í einokunaraðstöðu. Það er hinn stóri lærdómur af þessu máli og öðrum sambærilegum málum að slík fyrirtæki eru betur komin í eigu almennings sem ríkisfyrirtæki. Við vöruðum líka við því að blanda saman, ef fyrirtæki væri einkavætt, almennri þjónustu í þessum efnum og rekstri vegakerfisins í fjarskiptunum, þ.e. fjarskiptagrunnnetsins. Það á að vera í eigu ríkisins sem venjulegt ríkisfyrirtæki. Örbylgjusamböndin, jarðstrengir, ljósleiðarar og jarðstöðvar eiga að vera í eigu ríkisins og þar eiga að ríkja þær reglur að notendur séu allir jafnir án tillits til búsetu í landinu. Póstur og sími var og er reyndar enn mikilvægt fyrirtæki en því miður, herra forseti, er ástæða til að hafa áhyggjur af framhaldinu. Það er ekki gott ef jafnmikilvægt fyrirtæki og hér á í hlut verður fórnarlamb jafnhraklegra vinnubragða og hæstv. ríkisstjórn hefur ástundað í þessum efnum og má ekki á milli sjá hvort er verra, framganga hæstv. samgrh. eða drengskapur hæstv. forsrh. í garð eins af ráðherrum sínum.