Kjör stjórnenda Pósts og síma hf.

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:38:22 (963)

1997-11-05 13:38:22# 122. lþ. 19.1 fundur 49. mál: #A kjör stjórnenda Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:38]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á síðasta þingi bar hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fram fyrirspurn um laun og starfskjör starfsmanna Pósts og síma hf. Í svari mínu vakti ég m.a. athygli á þeirri gjörbreytingu sem varð á þeirri starfsemi og því starfsumhverfi sem Póst- og símamálastofnun hafði haft á hendi þegar hlutafélagið Póstur og sími hf. var stofnað. Póstur og sími gegnir hvorki stjórnsýslu- né eftirlitshlutverki því sem Póst- og símamálastofnun áður gegndi og stjórnsýslutengsl milli ráðuneytis og félagsins, sem áður voru milli ráðuneytis og Póst- og símamálastofnunar, rofnuðu. Ráðuneytið hefur því ekki skipunarvald í málefnum Pósts og síma hf. Niðurstaða mín í svari við fyrirspurninni var sú að ráðningar og starfskjör starfsmanna Pósts og síma hf. teljist trúnaðarmál milli stjórnar félagsins og starfsmanna og það breytti engu þar um þótt allt hlutaféð sé í eigu íslenska ríkisins og samgrh. fari með eignarhald ríkissjóðs í Pósti og síma hf.

Í framhaldi af fyrirspurn þingmannsins og svari mínu fór fram umræða utan dagskrár um rétt alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins. Hæstv. forsrh. lýsti því þá yfir að hann mundi beita sér fyrir að unnin yrði sérstök óháð lögfræðileg úttekt um aðgang Alþingis að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins að hluta eða í heild. Hæstv. forsrh. leitaði til Stefáns Más Stefánssonar prófessors við lagadeild Háskóla Íslands og var álitsgerð hans lögð fram sem skýrsla forsrh. fyrr á þessu þingi sem þskj. 25. Í niðurstöðu prófessorsins segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Varðandi málefni Pósts og síma hf. sérstaklega skal tekið fram að Alþingi hefur sjálft falið samgönguráðherra að fara með eignaraðild ríkissjóðs varðandi málefni fyrirtækisins. Samgönguráðherra er því skylt að gæta hagsmuna fyrirtækisins samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda í slíkum tilvikum og lýst hefur verið. Honum er ekki skylt og honum er jafnframt óheimilt gagnvart félaginu að gefa Alþingi upplýsingar sem hann telur að leynt eigi að fara og ekki geta talist til þeirra upplýsinga sem um er rætt í tölulið 2.`` Það eru upplýsingar sem eiga að vera opinberar lögum samkvæmt. Hér eru því staðfest rök fyrir synjun minni um að veita þær upplýsingar sem farið var fram á í fyrirspurninni.

Í lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, er fjallað um gerð ársreiknings hlutafélags, ársskýrslu stjórnar þess og samstæðureikninga þar sem því er að skipta. Samkvæmt 48. gr. laganna er eftirfarandi ákvæði um upplýsingaskyldu:

,,Upplýsa skal um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsári. Þá skulu laun og launatengd gjöld sundurliðuð ef það er ekki gert í rekstrarreikningi.

Veita skal upplýsingar um heildarlaun, þóknanir og ágóðahluta til stjórnenda félags vegna starfa í þágu þess.

Greina skal frá samningum, sem gerðir hafa verið við stjórn, framkvæmdastjóra eða starfsmenn um eftirlaun, og tilgreina heildarfjárhæðir.``

Hins vegar mælir ákvæðið ekki fyrir um sundurliðun með hliðsjón af einstökum starfsmönnum eða stjórnendum. Áhersla skal þó á það lögð að fyrsti ársreikningur Pósts og síma hf. liggur eðlilega ekki fyrir þar sem fyrirtækið tók til starfa 1. janúar sl.

Ég óskaði sérstaklega eftir afstöðu stjórnar Pósts og síma hf. til þeirrar fyrirspurnar sem hér er til umfjöllunar. Í svarbréfi formanns stjórnar félagsins er vísað til umsagnar stjórnarinnar um fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sem ég gat um áðan. Í bréfinu kemur fram að ekki sé unnt að veita upplýsingar um kjör einstakra starfsmanna án þess að brjóta undirritaða samninga um gagnkvæman trúnað. Einnig kemur fram að í ársreikningi félagsins verði birtar þær upplýsingar sem lög um ársreikninga og/eða hlutafélög kveða á um.

Svar mitt við þessari fyrirspurn er því þetta: Mér ber ekki skylda til og mig brestur heimild til að veita umbeðnar upplýsingar. Að gefnu tilefni tel ég ástæðu til að stjórn félagsins fái tíma og frið, góða samvinnu við starfsmenn alla sem hún vill búa sem besta aðstöðu og kjör á eftirsóttum vinnuvettvangi. Til þess þarf hún skilning og stuðning jákvæðra fulltrúa þjóðarinnar.

Herra forseti. Það kemur fram í bréfi formanns stjórnar Pósts og síma hf., Péturs Reimarssonar, að sex framkvæmdastjórar og forstjóri hafi bíl sem félagið eigi og reki en þeir greiði skatta af og skyldur eins og lög kveða á um.

Ég mun í síðari ræðu minni gera nánari grein fyrir þessum þætti í mínum upplýsingum þar sem tíma mínum er lokið og hef ég ekki tíma til að svara ítarlegar nú. Ég mun ljúka svarinu í síðari ræðu minni.