Húsnæðismál Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:12:09 (1005)

1997-11-05 15:12:09# 122. lþ. 19.7 fundur 203. mál: #A húsnæðismál Sjómannaskólans# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að vona að þeir áhugamenn um að Sjómannaskólinn verði áfram í húsinu sínu gamla í Reykjavík þurfi ekki að reka mál sitt eins og hv. þm. Kristján Pálsson gerði áðan með því að hnjóða í sjómannamenntun sem fram fer annars staðar í landinu. Það er hreint fráleitt einfaldlega vegna þess að það að bjóða upp á sjómannamenntun eins og ég þekki til fyrir norðan, hefur veitt ýmsum ný tækifæri til menntunar. Sá skóli hefur menntað fjöldann allan af sjómönnum. Þar er vaxandi aðsókn og aðsóknin er fyrst og fremst af norður- og austursvæðinu. Sá skóli mætir þörfum ýmissa þeirra sem ekki eiga heimangegnt til þess að vera í Reykavík veturlangt. Samt sem áður, þrátt fyrir þennan skóla, þrátt fyrir deildina í Vestmannaeyjum og þrátt fyrir skólann hér í Reykjavík, hefur okkur ekki tekist að mennta nægjanlega marga sjómenn þannig að mér finnst þessi málflutningur vera fyrir neðan allar hellur. Ég held að það væri nær að menn tækju höndum saman um að efla sjómannanámið heldur en vera með afnag af þessum toga.