Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:42:40 (1062)

1997-11-06 14:42:40# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:42]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er margt gott hægt að segja um frjáls félagasamtök og get ég tekið undir það með hv. þm. Ég ætla ekki að vera með einhverjar stórar yfirlýsingar um að allt sé rangt sem þau gera. Ég vil heldur ekki að við séum almennt í stríði við þessi samtök. En ég vek einungis athygli á því við Íslendingar þurfum að vera á varðbergi gagnvart þessum sjónarmiðum vegna þess að það eru, því miður, öfgar sem fá að ráða í allt of mörgum tilfellum. Fyrir þjóð eins og okkur Íslendinga sem lifum á því að nýta auðlindir okkar, þá verðum við virkilega að sinna þessum málaflokki, bæði með því ef mögulegt er að hafa áhrif á þessi samtök, þessi svokölluðu frjálsu félagasamtök, og eins með því að taka virkan þátt í því alþjóðlega samstarfi sem fer fram og þar sem um þessi mál er fjallað. Og það er erfitt að segja hvar á að draga mörkin. En þetta er svo stórt mál fyrir okkur Íslendinga að við verðum svo sannarlega að fylgjast með.

Ég minnist þess í sambandi við hvalveiðarnar að þegar Norðmenn hófu aftur veiðar á hval þá var viðtal við umhverfisverndarsinna, formann frjáls umhverfisverndarfélags í Bandaríkjunum sem sagði að það skipti engu máli hvort fjölgun væri á hval, það væri ekki málið. Það sem skipti máli væri það að þjóð sem veiðir hval er ekki umhverfisverndarsinnuð og svo punktur. Þegar svona öfgar ná yfirhöndinni í slíkri umræðu, þá er ekki gott að bregðast við og vinna gegn því. Og það er erfitt fyrir litla þjóð eins og okkur Íslendinga að berjast gegn fullyrðingum sem þessari. En í því tilfelli, eins og svo mörgum öðrum, skiptir máli að vinna með öðrum þjóðum sem eiga svipaðra hagsmuna að gæta og það munum við gera áfram.