Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:02:34 (1066)

1997-11-06 15:02:34# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Ég fagna því að sjálfsögðu að samningar séu í gangi og það sé tekið jákvætt á þeim umsóknum sem borist hafa um að þjóna á Keflavíkurflugvelli. Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. ráðherra í því að það er nægjanlegt rúm á Keflavíkurflugvelli fyrir miklu fleiri aðila til þess að sinna þeim gríðarlegu verkefnum sem þarna eru möguleg. Það er einnig kunnara en frá þurfi að segja að aðstaðan á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið slík fram að þessu að þar sé hægt að afgreiða flug minni véla vegna þess að Leifsstöð, eins og hún er búin út í dag, getur alls ekki tekið við því með neinu móti. Þess vegna má segja að samkeppnisstaða Keflavíkurflugvallar gagnvart Reykjavíkurflugvelli, þegar um er að ræða flug eins og svonefnt ferjuflug og flug minni flugvéla, hafi ekki verið til staðar þar sem ekki hefur verið aðstaða til þess að afgreiða þessar vélar með bensín eða aðra þjónustu sem þær þurfa að sjálfsögðu á að halda.

Ég fagna því að það skuli vera hugmyndin að reyna að leysa þetta mál fyrir áramót og við eigum þá von á því að þessi mál fari í farsælan farveg.