Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:04:54 (1080)

1997-11-06 16:04:54# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SP
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:04]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og ræðu um utanríkismál. Í hinni ítarlegu skýrslu er komið víða við og margt athyglisvert kemur þar fram og sýnir auðvitað umfang þessa mikilvæga málaflokks.

Hér hefur verið rætt um ýmsa þætti utanríkismálanna og fróðlegt að heyra mismunandi viðhorf hv. þm., líka þeirra sem ætla nú að fara að sameina sína flokka. Þeir hafa greinilega ekki náð að móta sameiginlega stefnu í utanríkismálum.

Sem formaður Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins langar mig til þess að koma inn á umræðuna um þróun Atlantshafsbandalagsins enda er árið 1997 óneitanlega sögulegt ár í sögu bandalagsins. Í júlí sl. var ákveðið á leiðtogafundi þess að bjóða þremur ríkjum til aðildarviðræðna við Atlantshafsbandalagið, Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi. Jafnframt hefur bandalagið gert samstarfssamninga við Rússland og Úkraínu og á leiðtogafundinum í júlí var skýrt tekið fram að dyr bandalagsins stæðu áfram opnar lýðræðisríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Ríkin í Mið- og Austur-Evrópu eru því ýmist um það bil að öðlast aðild að Atlantshafsbandalaginu, hafa sótt um aðild eða hafa samið við bandalagið um samstarf á sviði öryggismála.

Í umræðum um skýrslu hæstv. utanrrh. í apríl sl. fjallaði ég um yfirlýsta andstöðu ýmissa aðila í rússneskum stjórnmálum við stækkun bandalagsins til austurs og lagði áherslu á að ekki væri hægt að taka of mikið tillit til kröfugerða og jafnvel hótana frá öfgasinnum í rússneskum stjórnmálum. Jafnframt benti ég á að sem betur fer væru það ekki þeir háværustu í þeim efnum sem mótuðu utanríkisstefnu Rússlands. Nú hefur sú þróun orðið að rússnesk stjórnvöld hafa lagt blessun sína yfir stækkun bandalagsins til austurs og sjálf tekið upp náið samstarf við bandalagið. Þrátt fyrir endalok kalda stríðsins eru öryggis- og varnarmál enn gífurlega mikilvægur málaflokkur í evrópskum stjórnmálum. Ógnir við öryggi álfunnar geta stafað af útbreiðslu gereyðingarvopna, skipulagðri glæpastarfsemi, umhverfisvá, þjóðernisátökum og þannig mætti lengi telja. Einungis með virku samstarfi sín á milli geta ríki Evrópu tryggt öryggi og frið í álfunni.

Ég vil taka undir með hæstv. utanrrh. þar sem hann fjallar um þróun nýs öryggisfyrirkomulags í Evrópu þar sem ólíkar fjölþjóðastofnanir vinna saman að tryggingu öryggis og friðar í álfunni, samanber samstarf Atlantshafsbandalagsins, samstarfsríkja þess og ÖSE í Bosníu-Hersegóvínu. Ég vil þó í þessu sambandi leggja áherslu á áframhaldandi grundvallarmikilvægi Atlantshafsbandalagsins. Varðandi mikilvægi Atlantshafsbandalagsins þarf ekki annað en að líta á ásókn ríkja í Mið- og Austur-Evrópu um aðild að bandalaginu. Í því sambandi vakti sérstaka athygli mína ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér fyrr í dag og viðhorf hans gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Hv. þm. vildi leggja niður NATO og ásakaði menn um að þora ekki að horfast í augu við breytta heimsmynd. Mig langar til að vitna aðeins til skýrslu hæstv. utanrrh., með leyfi virðulegs forseta, en þar segir á bls. 25, í þskj. 292:

,,Þessi viðleitni Atlantshafsbandalagsins hefur verið formfest með stofnun Evró-Alantshafssamstarfsráðsins (EAPC), sem leysti Norður-Atlantshafssamvinnuráðið (NACC) af hólmi. Innan EAPC gefst samtals 44 ríkjum tækifæri til samráðs og samstarfs á sviði stjórnmála og öryggismála í samræmi við vilja og getu hvers ríkis. Sum samstarfsríkjanna hafa lengi stuðst við hlutlausa utanríkisstefnu, eins og t.d. Austurríki, Finnland, Sviss og Svíþjóð. Jafnhliða stofnun EAPC hefur Friðarsamstarfið (PfP) verið eflt og samstarfsríkjunum gefið tækifæri til að tengja fyrrnefnda pólitíska vettvanginn við sértækt og hagnýtt samstarf innan PfP. Þá eru hafin skoðanaskipti við sex Miðjarðarhafsríki utan bandalagsins sem ætlað er að stuðla að stöðugleika og auknu trausti við suðurjaðar bandalagsins. Loks hefur bandalagið ákveðið að efla tvíhliða skoðanaskipti við ríki sem hafa áhuga á aðild. Þess má geta að á undanförnum árum hafa tólf ríki sótt formlega um aðild að bandalaginu.``

Ég held einmitt að þessi tilvitnun lýsi mætavel mikilvægi NATO í breyttri heimsmynd og áhrifum þess á lýðræðisþróun í Mið- og Austur-Evrópu. En það er kannski erfitt fyrir suma hv. þm. að horfast í augu við einmitt þessa staðreynd. Bandalagið er eina stofnunin í evrópskum öryggismálum sem reynst hefur fær um að koma á og viðhalda friði í Bosníu-Hersegóvínu og Atlantshafsbandalagið er vettvangur náinna samvinnu ríkja Evrópu og Norður-Ameríku. Líkt og ítrekað hefur komið fram í yfirlýsingum, jafnt ráðherrafunda bandalagsins sem og á vor- og haustfundum Norður-Atlantshafsþingsins, er það eindreginn vilji allra 16 núverandi aðildarríkja bandalagsins að hlúa skuli að þeirri nánu samvinnu sem myndast hefur yfir Atlantshafið innan vébanda bandalagsins. Atlantshafsbandalagið bindur þannig saman hagsmuni Evrópu og Norður-Ameríku og á vettvangi bandalagsins mynda stjórnvöld þessara ríkja náin tengsl sem leggja ber áherslu á að viðhalda og rækta. Þessi áhersla á mikilvægi Norður-Atlantshafstengslanna er mjög mikilvæg fyrir okkur Íslendinga. Í stefnu okkar í öryggismálum ber því að leggja höfuðáherslu á að hlúa að þeirri stofnun sem hefur verið svo mikilvæg á undanförnum áratugum og gegnir enn lykilhlutverki í evrópskum öryggismálum þótt hún hafi tekið miklum breytingum í breyttum heimi. Ég vil því taka undir með hæstv. utanrrh. þar sem hann lýsir Atlantshafsbandalaginu sem hornsteini hins nýja öryggiskerfis Evrópu.

Virðulegi forseti. Margir hefðu eflaust viljað sjá Eystrasaltsríkin þrjú í hópi þeirra ríkja sem boðið hefur verið til aðildarviðræðna. Á leiðtogafundinum varð hins vegar það sjónarmið ofan á að fara bæri með gát að stækkun bandalagsins og færast ekki of mikið í fang í senn. Bandalagið þarf svigrúm til að laga sig að auknum fjölda aðildarríkja og með því að fara hægt í sakirnar verður hægara um vik en ella að halda stækkun bandalagsins áfram. Skýrum skilaboðum þess efnis að dyr bandalagsins stæðu áfram opnar, m.a. fyrir Eystrasaltsríkjunum, var hins vegar komið á framfæri í yfirlýsingu leiðtogafundarins og er það vel. Í því sambandi vil ég sérstaklega taka undir með hæstv. utanrrh. og lýsa þeirri von minni að umrædd ríki nýti þau tækifæri sem í boði eru á samstarfi við bandalagið og aðildarríki þess á vettvangi Friðarsamstarfsins og Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins. Athygli bandalagsins mun beinast að þessum slóðum og þar með raunar að norðurslóðum almennt. Varnarstöðin í Keflavík mun því áfram gegna mikilvægu hlutverki innan bandalagsins. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafði einmitt áhyggjur af stöðu hennar, m.a. varðandi fjárveitingar, og því hlýtur þessi athygli að vera okkur Íslendingum mjög mikilvæg pólitískt séð.

Þátttaka okkar í Norður-Atlantshafsþinginu er okkur líka mjög mikilvæg bæði til að koma að sjónarmiðum Íslendinga og til þess að taka þátt í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum í lýðræðisátt.

Á haustfundi Norður-Atlantshafsþingsins í sl. mánuði var m.a. ákveðið að ríkjunum þremur sem boðið hefur verið til aðildarviðræðna, Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi, yrði boðið að senda áheyrnarfulltrúa á fundi stjórnarnefnda þingsins frá og með næsta fundi hennar.

Norður-Atlantshafsþingið hefur á undanförnum árum haft frumkvæði að nánum samskiptum við þjóðþing fyrrum aðildarríkja Varsjárbandalagsins, þar á meðal rússneska þingið. Á haustfundi Norður-Atlantshafsþingsins í London árið 1987 var ákveðið að reyna að koma á nánu samstarfi við þjóðþing umræddra ríkja og árið 1990 gerðust fimm þeirra aukaaðilar að Norður-Atlantshafsþinginu, þar á meðal rússneska þingið. Í dag eiga þjóðþing 15 ríkja Mið- og Austur-Evrópu aukaaðild að Norður-Atlantshafsþinginu og hafa fulltrúar þeirra verið virkir í störfum þingsins. Það er trú mín að þessi tengsl hafi m.a. orðið til þess að efla gagnkvæmt traust, ekki síst hvað varðar Rússland og Úkraínu. Því kom það ekki á óvart í samstarfssamningum þeim sem Atlantshafsbandalagið hefur gert á árinu við Rússland og Úkraínu að Norður-Atlantshafsþinginu er sérstaklega falið að stuðla áfram að nánum samskiptum við þjóðþing viðkomandi ríkja og jafnvel efla þau.

Virðulegi forseti. Um leið og ég fagna stækkun Atlantshafsbandalagsins og bættum samskiptum Evrópuríkja á meðal vil ég einnig sérstaklega fagna þessu hlutverki sem fulltrúaþingi aðildarríkja bandalagsins hefur verið falið. Mikilvægi þingamannasamstarfs er undirstrikað í þessum samningum og er það vel enda þjóðþinganna að staðfesta stækkun bandalagsins þegar þar að kemur. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og því vil ég nota þetta tækifæri í umræðunni til að árétta mikilvægi NATO og Norður-Atlantshafstengslanna fyrir íslenska utanríkisstefnu.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og fyrir þessa umræðu.