Aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:15:51 (1096)

1997-11-11 14:15:51# 122. lþ. 22.2 fundur 35. mál: #A aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:15]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og fagna því að menn skuli ræða þessa hugmynd. Ég er hins vegar algjörlega ósammála hv. 11. þm. Reykn., um að þessi tillaga muni ekki ná því markmiði sem hún setur sér og kemur glögglega fram bæði í sjálfri tillögugreininni og greinargerðinni og ég raunar áréttaði sérstaklega í ræðu minni. Ég held að ekkert í þessari tillögu gefi hv. þm. tilefni til að draga þessar ályktanir. Þvert á móti hefur sú reynsla sem þegar hefur fengist á því að framkvæma þessa hugsun annars staðar, leitt í ljós að þessi aðferð gengur prýðilega upp. Hún nær mjög vel þessum markmiðum. Ég nefndi dæmi af stóru fyrirtæki í Bretlandi sem rekur stóra flugvelli. Þar er staðan sú að starfsfólkið almennt kýs að fara þessa leið, kýs að auka sparnað sinn og kýs að verja sparnaði sínum í að kaupa hlutabréf á þennan hátt og það á ekki síst við um það fólk sem hefur lægstar tekjurnar því auðvitað er ágóðavonin mest fyrir það. Þetta fólk munar langsamlega mest um það ef vel gengur í fyrirtækinu og það á þess kost að kaupa á tilteknum degi bréf á lágu gengi og síðan hækkar gengi hlutabréfanna. Þetta er sérstaklega gott fyrir það fólk sem hefur lökust kjörin.

Það er ekki alveg rétt hjá hv. þm. að skýringin á lágu sparnaðarhlutfalli hér á landi á undanförnum árum sé vegna þess að lífskjörin séu svo slök vegna þess að við sjáum að sparnaður almennings hér á landi er ekkert síður hjá því fólki sem hefur lakari lífskjör. Það er t.d. athyglisvert að það er auðvitað eldra fólkið og fólk sem komið er yfir miðjan aldur sem hefur nurlað mest saman af sparifé. Það hefur til að mynda komið fram í athugunum Ingva Arnars Kristinssonar í Seðlabankanum á samsetningu sparnaðarins að ekki er skýr fylgni milli tekna manna og sparnaðar. Það er ekki endilega þannig að þegar maður hækkar í launum úr 200.000 kr. í 250.000 kr. að hann auki sparnað sinn hlutfallslega sem því nemur. Það er oft og tíðum þannig að það ræðst af aldri viðkomandi manns. Viðbótartekjurnar fara oft til annarra hluta.

Mér finnst það vera hálfgerð deila um keisarans skegg þegar menn tala um hvort þetta sé skyldusparnaður eða frjáls skyldusparnaður. Mér finnst að vísu svolítið mótsagnarkennt hugtak að tala um frjálsa skyldu eða frjálsan skyldusparnað. Það getur vel verið að þetta hugtak sé til. Það er til, alveg rétt. Engu að síður er í því fólgin ákveðin þversögn vegna þess að hér er verið að leggja til að starfsfólkið hafi fullkomið val. Vilji starfsfólkið leggja fyrir eins og hér er verið að leggja til eða opna möguleika á, þá á það þennan kost.

Ég held, virðulegi forseti, að það mikilvæga í þessu sé kannski að sparnaðarkostirnir séu sem flestir. Í ályktun Samtaka iðnaðarins fyrr á þessu ári, sem ég vitnaði aðeins til, var sérstaklega talað um mikilvægi þess að sparnaðarkostirnir væru nægilega margir. Það er aðeins tæpt á þeim efnisatriðum í greinargerðinni á bls. 3. Sú ágæta erlenda grein sem ég vitnaði til í fyrri ræðu minni áðan, gengur einmitt út á að það sé höfuðnauðsyn að sparnaðarkostir séu sem flestir og fjölbreytilegastir og margvíslegastir þannig að hver finni eitthvað við sitt hæfi. Það er nákvæmlega það sem við erum að leggja til, fjórmenningarnir sem leggjum fram þessa þáltill., að við reynum að nýta okkur þá góðu reynslu sem hefur fengist annars staðar, í þessu tilviki sérstaklega frá Bretlandi þar sem ég þekki til, og hefur verið að nýtast mjög vel til þess að auka sparnað og í senn gefa fólki kost á eignaraðild í stórum fyrirtækjum og auka áhrif sín og tekjur. Þess vegna er það algjörlega rangt að þessi aðferð geti ekki gengið upp.

Hv. 11. þm. Reykn. nefndi nokkur atriði sem hann taldi að væri nær að gera. Ég get út af fyrir sig tekið undir ýmislegt af því. Það er spennandi hugmynd sem hv. þm. nefndi áðan, að afhenda almenningi hlutabréf í ríkisbönkum. Ég man eftir því að núv. hæstv. fjmrh. kastaði þessari hugmynd fram fyrir nokkrum árum og fékk nú frekar bágt fyrir minnir mig almennt í landinu og var sagt að hann væri með þessum hætti að sólunda eignum ríkisins. Þetta er auðvitað aðferð við að dreifa eignarhaldi og gefa almenningi kost á að auka bæði eignir sínar og tekjur. Það hefur þessi tillaga að markmiði og ég tel mig hafa sýnt fram á að gengur alveg upp.

Hv. þm. sagði að kannski væri nær að beita skattalegum aðferðum. Ég vil segja að með þessari tillögu erum við að ná sömu markmiðum án þess að þurfa að beita skattalegum afsláttarkjörum eins og við höfum verið að reyna að gera á undanförnum árum til að stefna að því sama. Ég held því að hvernig sem á þetta mál er litið þá sé þessi leið í fyrsta lagi algjörlega framkvæmanleg. Það hefur reynslan þegar sýnt okkur. Í öðru lagi, eins og ég hef þegar rökstutt og rakið, mun hún ná mörgum þeim markmiðum sem hv. þm. tók undir að væru mikilvæg án þess að þurfa að kosta til þess fjármagni úr ríkissjóði og það skiptir líka miklu máli vegna þess að það er þannig að þessi markmið sem við erum að stefna að um aukinn sparnað, um bættan hag almennings, aukna valddreifingu og eignadreifingu, eru markmið sem ég held að menn hljóti almennt að geta tekið höndum saman um og aðhyllst.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, rakti hvernig í sjálfu sér væri hægt að framfylgja þessu praktískt, t.d. með því að nýta heimildir fyrirtækjanna til að eiga hlut í sjálfum sér og nýta þau bréf til að afhenda starfsmönnum eins og hér er verið að leggja til. Það er auðvitað hægt að hugsa sér einhverjar aðrar aðferðir jafnframt. Þess vegna töldum við skynsamlegast að leggja þetta fram sem þáltill., vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að hin praktíska útfærsla krefst töluverðrar sérfræðivinnu og gagnasöfnunar frá útlöndum þar sem þetta hefur þegar farið fram. Þess vegna töldum við skynsamlegast að það færi fram þannig að þó að markmiðin væru sett alveg klár fram af Alþingi, þá væri hin tæknilega útfærsla við lagasetninguna sjálfa unnin af sérstakri nefnd sem væri þá sett fyrir með þessum hætti. Alþingi væri því að leggja línurnar en hin praktíska vinna færi fram annars staðar. Það er auðvitað ósköp eðlilegt mál og sjálfsagt og skynsamlegt.

Virðulegi forseti. Þetta eru þau efnislegu atriði sem ég taldi ástæðu til að koma inn á í þessari umræðu. Ég fagna því mjög að við ræðum þetta mál vegna þess að ég held að mál af þessu tagi hljóti að vekja mjög áleitnar spurningar og þetta sé mál sem við verðum að ræða í þeim miklu breytingum sem eru að ganga yfir bæði efnahagslíf okkar og atvinnulíf með ýmsum hætti.