Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 15:55:26 (1107)

1997-11-11 15:55:26# 122. lþ. 22.13 fundur 84. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[15:55]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum. Hér er lögð til breyting á sveitarstjórnarlögunum sem á að tryggja að eitt sveitarfélag geti ekki komið í veg fyrir sameiningu fleiri sveitarfélaga.

Hér er um að ræða sambærilegt ákvæði og samþykkt var sem ákvæði til bráðabirgða í sveitarstjórnarlögum á 120. löggjafarþingi árið 1995 í tengslum við sameiningu Flateyrarhrepps, Mosvallahrepps, Mýrahrepps, Suðureyrarhrepps, Þingeyrarhrepps og Ísafjarðarkaupstaðar. Í athugasemdum með því frv. kom fram að það var samið og lagt fram að frumkvæði samstarfsnefndar um framangreinda sameiningu. Jafnframt kom fram að samstarfsnefndin teldi að sá möguleiki væri fyrir hendi að íbúar eins eða tveggja sveitarfélaga gætu fellt tillögu nefndarinnar og að óbreyttum lögum yrði þá að hefja nýja tillögugerð og efna til nýrra kosninga.

Með þessu ákvæði var verið að koma í veg fyrir með líkum hætti og lagt er til í 1. gr. þessa frumvarps að kjósendur í miklum minni hluta hlutaðeigandi sveitarfélaga geti fellt tillögu um sameiningu sveitarfélaga og þannig komið í veg fyrir sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkja hana.

Í grg. með frv. er ítarlega farið yfir stöðu og þróun sameiningarmálanna og hvernig þau mál standa, ekki síst eftir það sameiningarátak sem hrundið var af stað fyrir nokkrum árum. Ég held að það hljóti að vera óumdeilt að sameiningarátakið hafi skilað okkur verulega áleiðis í því að sameina og fækka sveitarfélögum og gera þau stærri og öflugri til að takast á við þau viðfangsefni sem á í raun og sanni að vera á verksviði sveitarstjórnanna en eru nú á verksviði ríkisins.

Árið 1986 voru sveitarfélögin 223 en hafði fækkað um 27 eða í 196 í nóvember árið 1992 þegar fram fór atkvæðagreiðsla í landinu um sameiningu sveitarfélaga. Frá áramótum 1993/1994 til september árið 1997, þ.e. á þessu tímabili eftir sameiningarátakið, hafa orðið 14 sameiningar með fækkun sveitarfélaga um samtals 32. Samtals hefur sveitarfélögum því fækkað um 58 á liðlega tíu ára tímabili og í dag eru þau 165.

Gangi þær sameiningartilraunir eftir sem nú standa yfir, eða þær sem hafa verið samþykktar en ekki staðfestar, þá hefur sveitarfélögunum fækkað um 95 á liðlega tíu ára tímabili og verður það að teljast verulegt átak til þess að stækka og efla sveitarfélögin.

En það er ljóst, virðulegi forseti, að enn er langt í land að öll sveitarfélög verði það öflug að þau geti veitt íbúum sínum nauðsynlega þjónustu og séu fær um að taka við auknum verkefnum sem mikil umræða er um núna, t.d. að því er varðar grunnskólann sem fluttur hefur verið til sveitarfélaganna. Og nú stendur fyrir dyrum að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og ýmsir hafa efasemdir um að öll sveitarfélögin séu nægjanlega í stakk búin til þess að taka við þessum stóra og viðkvæma málaflokki. Ég held líka að það megi segja þegar horft er til atvinnulífsins úti á landsbyggðinni að einhæfni atvinnulífsins megi í verulegum mæli rekja til þess að sveitarfélögin hafa verið og eru enn mörg hver of smá til að geta myndað sterkar þjónustuheildir. Þetta kemur víða fram, ekki síst á sviði félagslegrar þjónustu þar sem smæð sveitarfélaga kemur í veg fyrir að grundvöllur sé fyrir rekstri. Víða um land er því ekki að finna fullnægjandi félagsþjónustu sem fólk hefur þörf fyrir sem veldur því að það hefur leitað til höfuðborgarsvæðisins til þess að fá þörfum sínum mætt og á þetta ekki síst við um aldraða og unga fólkið sem verður að treysta á ýmsa félagslega þjónustu og verður oft að taka sig upp og flytja í stærri sveitarfélög þar sem þjónustuna er að fá.

[16:00]

Staðreyndin er líka sú að ef við berum okkur saman við Norðurlöndin, þá erum við langt á eftir þeim í sameiningu sveitarfélaga, en Norðurlöndin gengu í gegnum veigamiklar breytingar í sameiningu sveitarfélaga fyrir nokkrum áratugum síðan og um 1970 var þessu ferli að mestu lokið þar. Eitt verður þó að segjast að verulegur árangur náðist ekki í stækkun sveitarfélaga fyrr en í kjölfar lagasetningar þar að lútandi þó að sveitarfélögin hafi þar haft umsagnarrétt en til þeirra lögþvingunar á Norðurlöndum var gripið þar sem lítill árangur hefur orðið af frjálsri sameiningu þeirra.

Hægt er að sjá hvað sveitarstjórnarstigið hér á landi er veikt samanborið við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum í töflu sem fram kemur í greinargerð með frv. Á Norðurlöndum hafa sveitarstjórnir fleiri verkefni sem falla betur að stjórnsýslu þeirra eins og að sinna ýmissi staðbundinni þjónustu. Hluti þeirra í skattheimtunni er einnig miklu meiri en hér á landi. Í töflunni sem ég set fram með greinargerðinni er hlutfall sveitarfélaganna í samneyslunni langminnst hér á landi en aftur á móti hluti ríkisvaldsins stærstur hér á landi.

Það er ljóst og flestir eru um það sammála að á Íslandi er ríkisvaldið með á sinni hendi flest þau verkefni sem sveitarfélög annars staðar á Norðurlöndum annast. Þar má nefna þjónustu við fatlaða, heilsugæslu grunnskóla sem nú er að vísu orðið verkefni sveitarfélaga en þar eru einnig sjúkrahús og framhaldsskólaverkefni fylkja, amta og léna. Ég held að í áranna rás hafi berlega komið í ljós að fjöldi sveitarfélaga hér á landi ræður illa við að sinna ýmsum þeim verkefnum sem eru nú þegar lögboðin. Veruleg hætta er einnig á því að þau hafi ekki getu til að taka að sér ný verkefni en eins og við vitum hefur bæði verið rætt um heilsugæsluna, öldrunarþjónustu, málefni fatlaðra, jafnvel félagslega húsnæðiskerfið og framhaldsskóla. Mörg stærri sveitarfélög hafa einmitt lýst yfir vilja sínum til að taka við auknum verkefnum frá ríkinu en afstaða smærri sveitarfélaganna til sameiningar hefur oft og lengi tafið þá framþróun sem er bæði í þágu eflingar sveitarstjórnarsviðsins og til að bæta hag íbúanna þó við séum vissulega að sjá núna með ýmsum sameiningum sem hafa gengið eftir á undanförnum mánuðum að það er viss hugarfarsbreyting orðin hjá smærri sveitarfélögunum til sameiningar við stærri sveitarfélögin.

Ég er alveg sannfærð um að krafa stærri sveitarfélaganna um að fá til sín fleiri verkefni muni fá aukinn þunga á næstu árum, ekki síst ef vel tekst vel til hjá reynslusveitarfélögunum sem hafa tímabundið yfirtekið til reynslu ýmis verkefni sem verið hafa hjá ríkisvaldinu. Það verður líka að telja það andhverfu á lýðræðinu að lítil sveitarfélög komi í veg fyrir eflingu sveitarfélaganna og getu þeirra til að yfirtaka fleiri verkefni frá frá ríkinu. Ég tel mjög mikilvægt að hraða eins og kostur er sameiningu og eflingu sveitarfélaganna þannig að þau fái aukið sjálfsforræði og möguleika til að yfirtaka málaflokka sem ég hef hér lýst. Með því yrði verulega dregið úr umsvifum ríkisvaldsins og staða landsbyggðarinnar og sveitarfélaganna gæti styrkst verulega. Það er skoðun mín að lágmarksíbúatala í hverju sveitarfélagi eigi ekki að vera undir 1.000 til að skapa nauðsynleg skilyrði til að flytja til þeirra verkefni og tekjustofna. Það er reyndar í samræmi við álit fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga frá 1991 þegar við vorum að undirbúa sameiningarátakið en þá var lýst yfir stuðningi við hugmyndir um stækkun og eflingu sveitarfélaga sem fólu í sér að sveitarfélögin næðu yfir mjög stór svæði og verði aðeins í undantekningartilvikum með færri íbúa en 1.000.

Ég held, herra forseti, að góður skriður sé á sameiningarmálum eins og ég hef hér lýst og það ætti að tryggja að ekki þurfi að koma til lögbindinga á hækkun lágmarksíbúatölu eins og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. En eins og áður hefur komið fram, þá er nú verið að gera nokkrar sameiningartilraunir og er ljóst af samtölum við ýmsa sveitarstjórnarmenn að þeir telja að þessi hætta geti verið til staðar nú og má ætla að stuðningur sé allverulegur hjá sveitarstjórnarmönnum við lagasetningu sem felur í sér að eitt sveitarfélag geti ekki komið í veg fyrir sameiningu fleiri sveitarfélaga eins og frv. þetta felur í sér.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.