Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 16:22:19 (1111)

1997-11-11 16:22:19# 122. lþ. 22.13 fundur 84. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[16:22]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hv. 5. þm. Vestf. er samkvæmur sjálfum sér. Hann var á móti þessari lagasetningu á 120. löggjafarþingi og er á móti þessu ákvæði nú og hefur fært rök fram fyrir því sem við erum greinilega ekki sammála um. Hv. þm. talar um að leikreglurnar þurfi að vera ljósar. Auðvitað eru þær alveg ljósar eftir sem áður þó þetta ákvæði væri samþykkt. Það var ástæða fyrir því að farið var í þetta á sínum tíma á 120. löggjafarþingi af því að þessi hætta var fyrir hendi. Ég hef einmitt orðið vör við það hjá sveitarstjórnarmönnum víðs vegar um land að þeir telja rétt og eðlilegt að ákvæðið um atkvæðagreiðsluna og niðurstöðu hennar sé með þeim hætti sem hér er lagt til. Við þessu er ekkert að segja, herra forseti, um þetta eru skiptar skoðanir og félmn. mun væntanlega fjalla um málið. Ég vænti þess að hún fjalli um það með þeim hætti að það fái að koma til atkvæðagreiðslu í þinginu aftur til 2. umr. þannig að niðurstaða fáist í málið.